27.5.2007 | 00:32
Nokkur atriði fyrir Sydney-fara
Eftir greinarskrif fyrir fyrir Sumarhúsið og garðinn, stífa skólasókn þessa vikuna og ritgerðarsmíð um erfðabreytt matvæli er Múrenan aftur sest að í Moggablogginu. Nú eru rúmlega þrjár vikur liðnar frá komunni hingað, og því óhætt að segja að maður sé orðinn allverulega sjóaður og því svo sannarlega í stakk búinn að geta leiðbeint þeim sem hafa í hyggju að yfirgefa Ísland, í þeim tilgangi að fljúga í 24 klukkutíma, til Sydney. Fyrir íslenska ferðalanga framtíðarinnar er pistill dagsins. Fyrir þá sem lítið hafa hreyft sig frá heimahögunum í gegnum tíðina þá fer ég yfir nokkur grundvallaratriði sem gæti verið mikilvægt að hafa í huga en einnig verður farið yfir sértækt efni sem hugsanlegt er að myndi koma mörgum í opna skjöldu ef þeir væru illa undirbúnir.
Hefst þá pistillinn.
- Eitt af því alfyrsta sem gæti komið heimóttarlegum hvíthúðuðum Íslendingum verulega á óvart við komuna hér, er fjöldi sólarstunda í borginni, og er hann nánast sá sami og fjöldi þeirra klukkustunda sem sól er yfirleitt á lofti hér, sjálfsagt að reikna með 10 - 12 klst á dag alla daga vikunnar.
- Varasöm umferð. Ástralir keyra eins og fífl ... alltaf öfugu megin og bílarnir eru í samræmi við það. Fyrir þá Íslendinga sem aldrei nokkurn tímann hafa heyrst minnst á London og umferðarmenninguna þar, gæti umferðin hér orðið þeirra banabiti. Einu sinni litið til hægri, af gömlum vana, og strætóinn er búinn að keyra yfir viðkomandi. Þetta getur gerst mjög snöggt. Hér er því meginregla sem hægt er að nota til að undirbúa sig fyrir þverun götu í Sydney ... Byrja á því að líta til vinstri og svo hægri ... Ég endurtek: Vinstri og svo hægri. Þetta á ekki endilega við um einstefnugötur, um þær gilda sérreglur sem tengjast aksturstefnu þeirrar götu.
- Tveggja hæða lestir. Breska arfleifðin er sterk þegar kemur að tveggja hæða almenningsfarartækjum. Lítt veraldarvanir Íslendingar ættu í flestum tilfellum að geta klórað sig fram úr óskráðum notkunarreglum þessara lesta ... í stuttu máli eru þær, að maður stígur inn í lestina, fær sér sæti og stígur svo útúr henni aftur nokkru síðar.
- Að vera í gönguformi er eitt að því allra mikilvægasta ... maður hoppar nú ekkert upp í bíl og út í sjoppu, bara sisona, sérstaklega þegar umferðin er mikil. Gæti þó verið spurning um hvort maður hefur aðgang á bíl ... látum þetta liggja á milli hluta ... Jæja, en ef maður ætlar að keyra bíl, þó ekki sé nema út í sjoppu, er vert að hafa lið 2. í huga.
- Góður maður sagði mér um daginn að um 180 tungumál væru töluð í Sydney. Mitt ráð, til að spara óhemju vinnu við tungumálanám, er mjög praktískt. Læra og kunna eitthvert hragl í ensku, því það er málið sem sameinar alla hér, háa sem lága, frá öllum heimsins hornum. Varasamt getur verið að ætla sér finna íslenskumælandi einstakling í borginni, vegna fágætis þeirra, nema sérlegar ráðstafanir hafi verið gerðar um slíkt. Meginreglan er því: Enska - ekki íslenska.
Fyrir þá sem eru veraldarvanari, eru eftirfarandi liðir sértækari en þeir á undan. Íslenskir heimalningar og kothúsabændur ættu að halda áfram lestrinum til að geta undirbúið sig enn betur ... fátt er nefnilega verra en taugabilun í mjög fjarlægum heimshlutum.
- Þegar beðið er eftir strætó fara menn í röð ... að minnsta kosti gildir það fyrir háskólanema sem taka strætó á háskólasvæðinu. Allir standa í fallega mótaðri röð og bíða prúðir og stilltir þar til vagninn kemur. Það er því miklvægt að ryðjast ekki framfyrir með ofstopa ... gera má ráð fyrir að slíkt verði ekki leyst með neinum vettlingatökum.
- Margir Íslendingar eru eflaust vanir bílum með blá, gul og jafnvel rauð blikkandi ljós. Hér mega menn hins vegar eiga vona á því að sjá fjólublá blikkandi ljós ... sem er til merkis um útkall eða vinnu hjá skógarverði. Ég veit, að ólíkt bláum og rauðum ljósum ekki er hægt að nota gul ljós í forgangsakstri, en ég veit ekki almennilega hvaða reglur gilda um þau fjólubláu.
- Umferðartalningar. Á Íslandi notar Vegagerðin sjálfvirka teljara. Í Sydney sitja 3-5 endurskinsmerktir karakterar á hverjum gatnamótum og telja bíla með teljurum, sem eru svipaðir þeim sem dyraverðir á Íslandi nota til að telja inn á skemmtistaði. Talningamennirnir eru að vísu með 4 eða 5 teljara, blað og blýant, og skera sig þannig nokkuð frá íslensku innteljurunum. Þetta gæti verið gott að vita fyrir ferðalang frá Íslandi, því vítavert er að trufla fólk sem er í miðjum klíðum að telja bíla.
- Ef svartur svanur verður á vegi þínum hér, er fullkomlega óþarft að þú æpir upp yfir þig og haldir að þú sért búin(n) að "finn ann", með öðrum orðum að þetta sé eini svarti svanurinn í veröldinni og þú hefir fyrst(ur) manna tekið eftir honum. Það getur vel verið að H.C. Andersen hafi haldið að svartir svanir væru ekki til, þegar hann var að skirfa sögurnar sínar en það er rangt. Nái geðshræringin tökum á þér, skaltu hafa það hugfast, og vera búin(n) að undirbúa þig undir, að líta strax í kringum þig. Ef þú gerir það er mjög líklegt að þú sjáir annan svartan svan og þar með er hugmyndin um "þennan eina" fallin og rénun geðshræringarinnar ætti að fylgja í kjölfarið.
- Ólíkur húmor. Þrátt fyrir að Sydneybúar eigi það sameiginlegt með Íslendingum að stela stundum innkaupakerrum úr stórmörkuðum er misjafnt hvað mönnum finnst fyndið að gera við þær eftir að brotið hefur verið framið. Gjarnan keyra Íslendingar kerrunum út í næsta snjóskafl og springa úr hlátri meðan Sydneybúum finnst óborganlegt að hvolfa kerrunum yfir umferðarskilti. Þetta er svona lítið dæmi um misjafna menningu, og sýnir mikilvægi þess að vera búin(n) að kynna sér sögu lands og þjóðar áður en lagt er upp í langferð.
Múrenan tékkar sig út með þessum orðum ...
Athugasemdir
ókei..... endurskinsmerktir karakterar með teljara.....úff hvað það hlýtur að vera óspennandi, ætli þetta fólk sé að taka út refsingu sína í samfélagsþjónustu fyrir glæp sinn....að hvolfa innkaupakerrum yfir umferðaskilti? ég held að þetta krefjist nánari athugunar....:)
Benný (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.