Veður og pólitík

Það svíkur engan Íslending, veðrið í Sydney ... það er alltaf sól hérna.  "Við verðum bara að drífa okkur út, meðan veðrið er svona gott" sagði Lauga á sunnudaginn síðasta og ég var henni alveg sammála.  Þetta náði náttúrulega ekki nokkurri átt að sitja bara inni og læra þegar í svona veðri.  Já, það er greinilegt að íslenska veðráttan hefur mótað mann ...

Þó hefur lofthitinn heldur látið undan síga síðustu daga, úr 20 - 24°C, í svona 16-18°C þessa vikuna.  Mér finnst það fúlt en Áströlunum hlýtur að vera létt, því hitastigið í maí, það sem af er, hefur verið talsvert fyrir ofan meðaltal.  Fólk ætti því að geta slakað ögn á í umræðunni um "global warming".  En það er svo sem vel skiljanlegt að fólk hafi hér áhyggjur af slíku, því þurrkar eru miklir í landinu.  Á töflu í skólanum sá ég nákvæmar leiðbeiningar um hvað má og má ekki varðandi vatnsnotkun ... kemur óneitanlega nokkuð spánskt fyrir sjónir, þegar maður kemur frá landi þar sem allt er fljótandi í vatni.

Þrátt fyrir þetta allt saman, getur rignt hérna.  Það sannaðist um daginn, þegar rigndi allt framundir hádegi.  Mér þótti það nú svo sem engin stórtíðindi og ekki Laugu heldur ... eina sem ég spáði í varðandi rigninguna var hvort buxurnar mínar myndu blotna á leiðinni í skólann.  Mér leiðist afskaplega mikið að vera í blautum buxum, sérstaklega í skólanum ... Lauga gekk ef til vill lengra í pælingum sínum því hún ákvað hérumbil að fara í hlífðarbuxur til að blotna í bæjarferð sinni.  Hvorugt okkar þurfti að hafa áhyggjur, að minnsta kosti í þetta skiptið, því áströlsk rigning lítur út fyrir að lóðrétt en ekki lárétt og virðist koma í gusum ... maður skreppur bara í skjól á meðan demban stendur yfir og heldur svo áfram ferð sinni ... skraufaþurr!!

Það þarf nú varla að taka það fram að þessi úrkoma var rosafrétt hér.  John Howard gekk meira að segja svo langt að skamma "undirmenn" sína fyrir að standa ekki betur að söfnun regnvatnsins.  "Hugsið ykkur allt þetta vatn sem rann niður um ræsin ... engum til gagns" sagði hann nánast kverkmæltur af æsingi ... sem náttúrulega er undarlegt, því hann hefur ekki verið til að skrifa undir Kyoto-bókunina og hefur allt til þessa ekki hlustað á, né tekið mark á aðvörunum vísindamanna um "global warming" 

Læt þetta duga í bili af veðri og pólitík í Ástralíu ... en læt eina mynd frá sunnudeginum fylgja ...Lauga í Moore Park


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hó!

Þú heldur náttúrulega að maður lesi aldrei bloggið þitt en það er regin misskilningur. Nenni bara ekki alltaf að leggja inn skilaboð, það er svoddans fyrirtæki hér á moggablogginu ef maður er ekki sjálfur bloggari.

Þið látið bara vita ef vatnsskortur fer að gera vart við sig í heimilshaldinu í Sydney, við skröpum þá saman í eins og einn vatnstank og sendum ykkur og ég skal þá líka athuga hvort leigjandinn vill ekki láta eins og einn gosbrunn fljóta með.

Hér snjóaði annars á mánudaginn, öllum bjartsýnum Íslendingum til stórfurðu en okkur hinum sem höfum einhvern snefil af raunsæi þegar kemur að veðurfari á Íslandi einungis til hughreystingar um að veðurfarið hér hefur ekki ennþá tekið neinum stakkaskiptum. Snjórinn hvarf af láglendi sama dag (eins og við var að búast) en hefur ekki enn hörfað af fullu úr fjöllunum. Enda bara maí ennþá :O)

Jæja góði, bless í bili og bið að heilsa spúsu þinni í pollabrókunum:O)

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband