Brotið mikla

Þegar til Sydney er komið, er fólk heima á Íslandi afskaplega forvitið að vita hvernig landið liggur hérna hinumegin á jarðarkringlunni.  "Jæja, og hvernig er svo að vera andfætlingur?" eða "hvernig er að snúa svona öfugt, rennur ekki allt blóðið bara upp í höfuð?" eða "ég hef verið að spá í hvað þið haldið eiginlega ... þið hljótið að þurfa að passa að detta ekki út í geiminn?" eru spurningar sem maður hefur nauðugur viljugur þurft að svara.  Bara ef einhver efi er í huga þér ... maður finnur ekki fyrir neinum mun þó maður snúi "öfugt"!!  En lélegir brandarar fólks sem hefur aldrei komið suður fyrir miðbaug, áttu ekki að vera umtalsefni nú, miklu heldur sú staðreynd að það getur verið þreytandi að brjóta spöngina á gleraugunum sínum þegar maður er nýkominn til Ástralíu. 

Ég hef notið þeirrar "gæfu" að vera allt að því sjónlaus í bráðum 20 ár en slíkt "sjónleysi", eins og flestir vita, kallar á nokkuð massífa gleraugna- eða linsunotkun.  Í þessi tæp 20 ár má telja á fingrum annarrar handar þau skipti sem eitthvað vesen hefur komið upp hjá mér, varðandi sjóntækin, en þau fáu sem ég man eftir tengjast alfarið linsunum.  Ólíkt mörgum öðrum hefur mér haldist ákaflega vel á gleraugum, sem er til dæmis mjög ólíkt þeirri reynslu sem Jón Þór vinur minn býr yfir.  Mig minnir að á fjórum árum í Menntaskólanum á Akureyri hafi hann brotið fern gleraugu ... jæja en nóg um það. 

Nánast það fyrsta sem ég sé þegar ég vakna fyrsta morguninn í Sydney er að mér hefur tekist með einhverjum undarlegum hætti að beygja gleraugnaspöngina þar sem hún skrúfast við gleraugun.  Hvernig það hefur getað gerst er mér enn hulin ráðgáta ... Þegar ég ætlaði svo að rétta spöngina við brotnaði hún af ... húrra!!!! 

Þetta var nákvæmlega það sem ég hafði óskað eftir ... fara til Ástralíu og byrja á því að kaupa mér ný gleraugu.  Ef það var eitthvað sem átti að endast þá voru það blessuðu gleraugun!!  En sem betur fer hafði ég ráð við þessu, því í farangrinum var nefnilega eitt par af linsum ... á þessu pari hef ég fleytt mér yfir dagana sem liðnir eru frá brotinu mikla!!! 

Þó mun sennilega líða að því fljótlega að fyrrum hjúkrunarfræðingur á augngöngudeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, sem er einmitt með mér í för, reki mig í gleraugnaverslun í þeim tilgangi að fá mér "nýtt sett á nefið", eins og áðurnefndur Jón Þór kallaði það í hvert sinn sem hann birtist með ný gleraugu, hér á árum áður.  En þangað til verða linsurnar bara að duga!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég ætlaði að segja það!....að það yrði ekkert bloggað frá Ástralíu! En eins gott, ég ætla að taka þátt í ástralíubröndurunum og krefjast þess að þegar þið komið til baka talið þið ekki eingöngu með áströlskum hreim heldur líka frumbyggjamál :D Bara hugmynd!

Benný (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 19:03

2 identicon

Að heiman er allt gott að frétta. Við brutum niður nokkra veggi í íbúðinni ykkar til að koma fyrir gosbrunni. Ekkert af þeim reyndust burðarveggir. Þurfum sennilega að grafa fyrir nýrri heimaæð til að ná þrýstingi í gosbrunninn.

Erum þegar búin að halda þrjú partí, öll voða vel heppnuð nema tvö. Nú förum við í sumarfrí, en hljómsveitin sem leigir af okkur á meðan fullvissar okkur um að allt verði í lagi um leið og bassaleikarinn er kominn úr gæsluvarðhaldi.

Bestu kveðjur, og hafið engar áhyggjur af okkur,

Leigjandinnn

DonPedro (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 10:59

3 identicon

Gott að þið hafið komist óhult á leiðarenda. Drífa sig að finna ný gleraugu, það liggur við að ég brjóti gleraugun mín reglulega bara til þess eins að hafa afsökun til að kaupa ný...soldið dýrt að vera gleraugnafan, en ákaflega skemmtilegt   Njóttu lífsins þarna down under...

Helga Snæ (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 12:24

4 identicon

Ég bíð spenntur eftir myndum af þér með "nýja settið á nefinu" - ...hvernig er það... eruð þið þá á hvolfi á öllum myndunum sem þið sendið heim? Eru myndavélarnar ykkar ekki stilltar á "okkar megin" á hnettinum.

Gaman að sjá líka að leigjandinn er að koma sér vel fyrir - kemur sér örugglega vel fyrir umhverfissálfræðing að vera með gosbrunn í stofunni!

kveðjur frá hommunum á nesinu

gleraugnaböðullinn (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband