15.3.2007 | 09:29
Aðalstræti
Mér hefur fundist virkilega gaman að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað við Aðalstræti í Reykjavík á síðustu árum. Í gær lauk formlega endurbyggingu húss nr. 10, sem mun vera eitt hið elsta í borginni, byggt árið 1762. Við nánari athugun er Viðeyjarstofa líklega eina húsið sem er eldra innan borgarmarkanna, þannig að Aðalstræti 10 er næstelst ... nóg um það.
Við lok þessara framkvæmda er húsalengjan vestan Aðalstrætis milli Túngötu og Grjótagötu orðin ein sú glæsilegasta í borginni. Þar er Hótel Centrum á grunni húsa nr. 14 og 16, veitingastaðurinn Maru í gamla Ísafoldarhúsinu sem flutt var úr Austurstræti og fundin staður við Aðalstræti og loks áðurnefnt hús nr. 10. Til að setja punktinn yfir i-ið að svo stöddu, mætti vel fjarlægja gamla Miðbæjarmarkaðinn, þ.e. hús nr. 9 og veita Fógetagarðinum, sem stendur á horni Kirkjustrætis og Aðalstrætis, þá viðurkenningu sem honum ber.
Þá hefur einnig frábærlega tekist til við endurbyggingu Geysishússins, sem stendur á hinu horni Aðalstrætis. Að mínu mati er stemmningin á horninu þar, við gatnamót Vesturgötu, Aðalstrætis og Hafnarstrætis, einhver sú allra skemmtilegasta sem fyrirfinnst í borginni en þar er maður umkringdur fallegum húsum á borð við Bryggjuhúsið (Kaffi Reykjavík), Fálkahúsið og áðurnefnt Geysishús. Maður verður samt að passa sig á að horfa ekki á Hlöllabáta, Hótel Plaza eða gamla Morgunblaðshúsið, ef löngun er til að njóta "andrúmsloftsins" á horninu til fullnustu.
Athugasemdir
Ég er eiginlega sammála öllu sem þú segir þarna, nema kannski að fjarlægja Miðbæjarmarkaðinn. Mér fynndist það reyndar til bóta, en bara til að vera raunsær, þá gengur það ekkert upp. Ég er handviss að þessi arkitektúr hefði aldrei verið samþykktur þarna í dag, frekar en Mbl höllin.
Þessi mibæjarkjarni í þessum anda finnst mér vel ganga upp, en að útvíkka hann upp eftir öllum Laugaveginum finnst mér fráleitt. Meira að segja hef ég efasemdir um Lækjargötuna. Bernhöftstorfan er auðvitað menningarsögulegt verðmæti, en við svona breiðstræti eins og Lækjargatan er, þá gerir þetta ekkert fyrir umhverfið. Frekar vil ég sjá þarna myndarleg hús með nýstárlegum arkitektúr, samt kannski í anda MR og flytja torfuna og Árbæjarsafn út í Viðey.
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.3.2007 kl. 16:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.