Meira um Kjalveg ...

Sigríður Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri lætur eftirfarandi orð falla í umræðu í Blaðinu í dag, um uppbyggðan Kjalveg: "Ég er á móti því að aðgangur að hálendinu sé aðeins fyrir sérútbúna jeppa og sé ekki náttúruverndina á Kili í dag að þeysast þar um í rykmekki á holóttum vegi."

Hvað er málið með þessi rök að hálendið sé aðeins fyrir einhverja útvalda?  Ég veit ekki betur en það séu rútuferðir á nokkuð vægu gjaldi þvers og kruss um hálendið allan þann tíma sem vegir þar eru á annað borð opnir. Og viti fólk það ekki ... þá eru ferðafélög í landinu og einnig alls kyns félagastarfsemi önnur sem hefur að markmiði að ferðast um landið.  Þess vegna hafa langsamlega flestir tök á því að fara inn á hálendið kjósi þeir svo ... þó þeir geti ekki farið það á litla fólksbílnum sínum. 

Hvers virði er líka hálendið ef allir komast á öllum tímum fyrirhafnarlaust út um allt?  Hversu margir falla í stafi þegar þeir keyra yfir Holtavörðuheiðina, njóta útsýnisins og þess að vera uppi á öræfum, sem maður vissulega er, þegar upp á heiðina er komið?  Staðreyndin er sú að flestum leiðist að aka yfir Holtavörðuheiðina ... svo maður tali nú ekki um Norðurárdalinn!!  Hversu margir njóta leiðarinnar frá Fljótsdal inn að Kárahnjúkastíflu ... og þá meina ég "njóta leiðarinnar"

Svo má spyrja hvort bæjarstjórinn á Akureyri viti ekki að Kjölur hefur verið fólksbílafær um nokkurra ára skeið.  Hann er nokkuð seinfarinn fyrir fólksbíla ... en fær er hann á sumartíma.  Rökin um að leiðin sé aðeins fyrir útvalda jeppakarla falla því hér.

Svo virðist bæjarstjórinn ekki átta sig á að náttúruvernd felur líka í sér að gæta að hljóðvist.  Hversu stórt væri áhrifasvæði flutningabíls sem keyrir á uppbyggðum, malbikuðum vegi á Kili?  Hversu stórt er áhrifasvæði sérútbúinna jeppa á holóttum vegi til samanburðar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér finnst þetta snúast um það hvernig við notum landið. Þeir sem ekki vilja hreyfa við neinu stilla dæminu gjarnan upp þannig að hinir sem vilja nýta það til fleiri hluta en að náttúran sé þarna bara, að þeir séu umhverfissóðar. Það hlýtur að vera þarna millivegur einhversstaðar. Jafnvel uppbyggður millivegur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.3.2007 kl. 11:36

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Vissulega er millivegurinn það rétta í málinu ... en þá verður það líka að vera millivegur.  Að mínu mati er uppbyggður vegur yfir Kjöl ekki millivegur og að allir komist alltaf allt er heldur ekki millivegur.  Þó ég telji mig náttúruverndarsinna er ég ekki að segja að ekki megi hreyfa við neinu, og í raun held ég að það eigi við um flesta slíka.  Ágreiningurinn er bara um hvaða aðferðum er beitt og hver markmiðin eiga vera.

Páll Jakob Líndal, 2.3.2007 kl. 12:00

3 identicon

Væriru ekki frekar til í að verja strandlengjuna?  Kjalvegur er einfaldlega skynsamleg leið yfir landið sem forfeður okkar áttuðu sig á að væri styttri og betri en að þræða krummaskuðin milli landshluta. Hún varð til löngu áður en íhaldsmönnum datt í hug að fara að kalla sig náttúruverndarsinna.

Kjartan Hallur (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 23:59

4 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Jú, ég væri til í að vernda strandlengjuna - t.d. er ég alveg á móti því að skip eins og Wilson Muuga sigli milli skerja við Reykjanes í þeim eina tilgangi að spara svolitla olíu.  Er líka á móti fyrirhugaðri vegalagningu fyrir Hjallaháls á Barðaströnd.  Þannig að ég vil vernda hálendið og strandlengjuna.

Við erum sammála um að Kjalvegur er skynsamleg leið, ef stytta á vegalengdir yfir landið.  Enda er ég á því að langafi minn, Páll Briem hafi gert góða hluti þegar hann ásamt Daniel Bruun barðist fyrir að Kjalvegur væri varðaður, en það var fyrir aldamótin 1900.  Þá voru menn ekkert að spá í náttúruvernd, og væru ekkert að því núna ef fólk byggi við sömu kjör og þá ...  labbar þú oft norður Kjartan Hallur? 

Óháð því hvort Kjalvegur sé góður eða slæmur, þá er það argasta firra að kalla náttúruverndasinna íhaldsmenn og beinlínis hlægilegt ... nú þegar óspillt náttúra á undir högg að sækja í veröldinni.  Hefurðu heyrt um hugtökin gróðurhúsaáhrif, eyðing regnskóga, eyðilegging mikilvægra búsvæða, grunnvatnsmengun, hljóðvist ... o.s.frv.?

Páll Jakob Líndal, 6.3.2007 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband