22.11.2012 | 23:33
Fimmtudagur 22. nóvember 2012 - Sushi, dans og "damm"
Það er alveg stórmerkilegt hversu mikið æði maður getur fengið fyrir tilteknum mat, og sérstaklega er það merkilegt í þeim tilfellum þar sem manni fannst áður sami matur hreinn viðbjóður.
Þegar ég útskrifaðist úr sálfræði frá HÍ var veisla heima. Lauga útskrifaðist þennan sama dag úr hjúkrunarfræði og Nikki frændi úr verkfræði. Þannig að það var þreföld útskriftarveisla með yfirskriftinni "Þrjú undir sama þaki". Sumir misskildu þetta slogan hressilega, en samt alveg skiljanlega, og héldu að Lauga væri ólétt ... en jæja, svo var nú ekki.
En í þessari veislu smakkaði ég svona sushi-maki í fyrsta skipti. Hafði alls enga hugmynd um hvað þetta var þegar ég tróð heilum bita upp í mig. Ég hélt að ögurstund væri runnin upp. Í miðjum samræðum við einhvern sem ég man ekki hver var, braust þetta magnaða "maki-bragð" fram, sem minnti helst á saltað þurrhey. Ég náði með undraverðum hætti að halda andlitinu ... en hét því álíka viðbjóður færi aldrei inn fyrir mínar varir aftur.
Það hélst í 5 ár. Í Sydney, juðaði Lauga svo í mér að ég prófaði aftur. Viðbjóður.
Þrjú ár liðu. Tilboð dagsins hjá sushi-staðnum í Gottsunda Centrum í Uppsala inniheldur 4 maki bita, og 6 bita með laxi, rækju, avocato og tofu.
Til að gera langa sögu stutta. Ég hugsa um sushi á hverjum degi. Þrátt fyrir ágæt viðskiptatengsl við staðinn í Centruminu er best að fá sér "haltu-kjafti"-sushi frá staðnum í Sommarro. Tekur ekki nema 40 mínútur á hjóli að skjótast eftir slíku.
Geri það hiklaust.
Þetta er svolítið svipað og með grænu ólífurnar hérna um árið.
---
"Mamma, ég dansaði allan tímann!!" Guddan kom hlaupandi út úr danstímanum í dag og faðmaði mömmu sína.
PJPL kom svo skundandi á eftir og faðmaði systurina. Mikil gleði.
Ekki síst vegna þess að loksins í næstsíðasta tíma annarinnar fæst GHPL til að taka þátt í tímanum. Hinir tímarnir hafa bara verið eitthvert djók.
---
Nei-maðurinn mikli á heimilinu segir ekki bara "nei" þó kannski hefði mátt lesa það út úr færslu gærdagsins.
Hann segir líka "damm". Það þýðir "fram" eða "þarna".
Svo kallar hann allt kvikt "mamma". GHPL á ekki til orð þegar hann bendir á hana og segir "mamma". "Neeeeiii, ég er ekki mamma. Ég er Gurún". Hún getur ekki sagt Guðrún.
---
Þó svo "ekki-nei"-aðferðin sé nú ekki að skila mjög sannfærandi árangri, er alveg ljóst að aðferðin við að koma lýsi ofan í börnin er skotheld.
Ég ætla að leyfa mér að segja að ég sé mjög góður í því að láta börnum líka við lýsi. Fullt hús þar.
Jafnvel svo að PJPL upplifir hápunkt dagsins á milli 8 og 1/2 9 á hverjum morgni þegar hann hesthúsar hálfri teskeið af lýsi, skömmu eftir að hann hefur sporðrennt fimm dropum af D-vítamíni.
"Ís" kallast lýsið hjá þeim stutta. Svo skemmtilega vill til að hann notar sama orðið yfir annað uppáhald, hinn raunverulega "ís".
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.