2.9.2012 | 22:08
Sunnudagur 2. september 2012 - Eitthvað að gerast
Jæja ... hérna hafa hlutirnir verið að gerast frá því síðast var bloggað.
Þar ber helst að nefna leikskólaævintýrið hjá nafna mínum, sem gengur mjög vel. Hann fær þá einkunn núna að hann sé allur að eflast og styrkjast. Og að auki glaður og hress.
Guddan fær líka ágætis einkunn. Hún er núna búin að kynnast nýrri stelpu á leikskólanum. Sú á ættir að rekja til Gambíu og talar ekki stakt orð í sænsku, bara eitthvað "húgúlúgú"-mál. GHPL talar sænsku og íslensku á móti.
Að sögn viðstaddra ná þær alveg frábærlega saman og spjalla saman með þeim hætti sem ekki nokkur lifandi manneskja skilur nema þær tvær. Það verður að segjast hreint dásamlegt hvað börn geta stundum fundið út úr hlutunum.
Sjálfur er maður á kafi í að skrifa doktorsverkefnið. Það mjakast og jafnvel svo að maður hefur það á tilfinningunni að þetta muni einhvern tímann klárast. Tilfinning sem ég hef svo sannarlega ekki haft á hverjum degi síðustu árin ;) .
En stundum stendur maður upp af stólnum ... eins og t.d. í kvöld þegar ég lék með Vaksala SK gegn Rosersberg. Það þarf nú ekki að orðlengja það mikið ... við stútuðum leikum 7-0. Mótherjar okkar sáu aldrei til sólar og ekki var nú verra að síðuhaldari opnaði loksins markareikninginn sinn. Það var kominn tími til. Hefði svo með réttu átt að fá tvær vítaspyrnur en dómarinn taldi þó í bæði skiptin að að brotið hefði verið svona 1 cm utan við teig.
Þetta var gaman.
Athugasemdir
Það er frábært þegar maður fær þessa tilfinningu í doktorsnáminu! Ég held að fólk átti sig almennt ekki á hversu mikil rússíbanareið þetta er ... hundrað sinnum upp og niður allan tilfinningaskalann á meðan á þessu stendur og oftar en ekki bætast nokkur ár við upphaflega planið. En nú er þetta að koma; Guddan farin að ræða heimsmálin við Gambíska vinkonu sína og markareikningurinn opinn upp á gátt ... getur ekki klikkað :)
Stjóri (IP-tala skráð) 3.9.2012 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.