Föstudagur 29. júní 2012 - Vikan gerð upp í snarhasti

Þá er síðasti dagurinn hér í þessari íbúð á enda runninn. Ég verð að segja að ég hefði alveg verið til í það að búa áfram á þessum stað ... en svona er þetta bara. Maður á eftir að finna eitthvað enn betra.

Óhætt er að segja að töluvert hafi á dagana drifið síðan síðast var skrifað á þessa síðu ... þannig að hér verður ofurlítið uppgjör.

Síðustu helgi ákváðum við að flytja svolítið af dótinu okkar yfir í nýju íbúðina áður en við lögðum land undir fót. Ferðin lá til Eskilstuna, nánar tiltekið í skemmtigarð þar sem kallast Parken Zoo. 


Börnin leika listir sínar á leið til Parken Zoo


GHPL sýndi góða hæfileika þegar hún stökk á milli steina, líkt og sjá má hér.


Nafni tók upp á því að sitja í fyrsta skipti á ævinni í kerru í Parken Zoo


Með flamingóa í bakgrunni 

Eftir að hafa skoðað þar alla króka og kima, fórum við og fengum okkur pizzu, héldu svo til Strängnäs þar sem við tókum nokkrar góðar syrpur. Strängnes kom skemmtilega á óvart ... virkilega skemmtilegur bær, að minnsta kosti í kvöldblíðunni í júní.

 
PJPL niður við höfn


Guddan brá sér aftur í hlutverk flamingóa 

Ferðin var mjög vel heppnuð í alla staði. Sérstök verðlaun fyrir frábæra frammistöðu í ferðinni fékk GHPL. Nafni lenti í öðru sæti sem skýrist fyrst og fremst af litlum kærleik milli hans og bílstólsins sem hann hafi afnot af. 

Á sunnudeginum var svo lagt á ráðin og heimsmálin krufin, allt þar til síðuhaldari spilaði sinn síðasta fótboltaleik með Vaksala Vets fyrir sumarfrí. Óhætt er að segja að liðið sé komið á beinu brautina en þá um kvöldið var þriðja sigrinum í röð landað í blíðskaparveðri á Årsta IP vellinum.

Vikan hefur svo farið í taumlausa vinnu hjá öllum og margir skemmtilegir hlutir gerst.

Þetta er nefnilega vikan þar sem GHPL eignaðist vini hér í götunni, vini sem hún fer með út að leika og vini sem koma til heimsókn til hennar. Í dag var t.d. fullt hús af krökkum hér í dágóða stund sem er algjör nýbreytni ... en skemmtileg nýbreytni.
Það er alveg augljóst ef áfram heldur sem horfir að ég verð að pússa mína sænsku allrækilega.


Með vinunum úti á svölum 

Að lokum er gaman að segja frá því að fyrsta skipti sá ég mann sem skemmti sér konunglega í eltingarleik ... orða þetta kannski aðeins nánar ... ég er sko að tala um mann sem skemmti sér konunglega einn í eltingarleik. 

Auðvitað var það minn ástkæri sonur sem hafði svona sannfærandi ofan af fyrir sér. Hljóp hvern hringinn á fætur öðrum í íbúðinni og heyra mátti í honum skríkjandi af spenningi. Afar skemmtileg og ekki síður athyglisverð sjón.

En svona er þetta ... það verður ekkert blogg á morgun því það er ekkert net í nýju íbúðinni. Á sunnudaginn verður svo haldið til Íslands. Þá verður Ísland komið með nýjan forseta til næstu fjögurra ára. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband