9.6.2012 | 22:55
Laugardagur 9. júní 2012 - Afmælisveislan
Í dag var afmælisveisla ... fyrsta alvöru afmælisveislan hjá dótturinni.
Þess vegna er ótrúlega spælandi að video-ið sem tekið var af henni að blása á kertin þurfti að sjálfsögðu að eyðileggjast. Ástæða þeirrar eyðileggingar er eitthvað sem myndavélin ein getur gert grein fyrir.
En hér mættu góðir gestir í kökur og með'í.
Lauga bakaði einhverja merkustu köku sem um getur ... en það var fjögurra hæða prinsessuterta. Guddan var alveg sátt við það.
Um klukkustund fyrir afmælið leit það ekki björgulega út með prinsessutertuna. Jafnvel var rætt um að koma henni bara einhvers staðar fyrir á góðum stað meðan afmælið færi fram. En svo var reynt til þrautar og útkoman harla glæsileg.
Það er ljóst að það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur að þessu sinni ... ;) .
Svo var þessi bökuð líka og afmælisbarnið sjá um skreytingarnar.
Þegar skreytingin átti sér stað, stóðst afmælisbarnið ekki málið og sleikti nokkra mola áður en hún hugðist setja þá á kökuna, en var búið að koma henni í skilning um að hún ætti ekki að raða molunum í sig.
Það komst upp um strákinn Tuma og sagði móðirin að hún mætti alls ekki sleikja molana áður. "Ef þú sleikir molana þá verður þú að borða þá", sagði hún.
Ég kímdi enda ekki alveg sannfærður um að þessi regla myndi skila tilætluðum árangri.
Afmælisboðið gekk ljómandi vel og ekki að sjá annað en að afmælisbarninu, foreldrum og gestum líkaði það hið besta.
Margar góðar gjafir bárust og kunnum við öllum miklar þakkir fyrir þær.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.