Laugardagur 2. júní 2012 - PJPL í aðalhlutverki

Sonurinn hefur verið að gera ágæta hluti í dag ...

... í örstutta stund komust litlir fingur í lyklaborðið á fartölvunni og hvað gerðist? 

Jú, litlu fingurnir sendu tölvunni skipun um að snúa skjámyndinni á hvolf ... líkt og sjá má á myndinni.

Það tók tíma sinn að lagfæra þetta.

Með þessu fetaði sá stutti í fótspor systur sinnar, sem sneri skjámyndinni 90° þegar hún slapp í tölvuna hjá ömmu sinni og afa á Sauðárkróki í kringum jólin 2008. Þá tók enn lengri tíma að finna út úr hlutunum.

Í kvöld vildi PJPL endilega komast upp í sófann í stofunni. Í viðleitni sinni til að komast þangað sneri hann bakinu í sófann, hallaði höfðinu aftur og teygði hendurnar upp fyrir höfuð ... sbr. mynd hér fyrir neðan ...

Maður verður bara að vona að verkvitið eða hvað maður skyldi kalla það, skáni með aukinni reynslu ... en það var alveg ljóst öllum öðrum en honum sjálfum að þessi aðferð er gjörsamlega vonlaus.

En svo var honum hjálpað aðeins og þá var gaman ...

 

Og á þessari mynd má sjá herramanninn taka til hendinni í eldhúsinu. Er þarna með sína eigin "eldavél", pott og allar græjur.

Þessi eldamennska endaði þó með svolitlum látum því litli kokkurinn, á einhverjum tímapunkti, leit snögglega við til að sjá hvað væri að gerast bakvið sig, missti jafnvægið, snerist hálfhring, kútveltist og endaði með einhverjum snilldarhætti liggjandi ofan í pottlokinu sem sést á myndinni. Hreint óborganlega sena.

Okkur Laugu finnst þessi ungi maður oft minna töluvert á Peter Sellers í Bleika pardus-myndunum eða Leslie Nielsen í Naked gun-myndunum, svo ég tali nú ekki um snillinginn Chris Farley í myndinni Beverly Hills Ninja. Það er bókstaflega ekkert að gerast, allt í friði og spekt. Svo á sér stað eitthvert ofurlítið atvik. Við því er brugðist sem verður til að í gang fer einhver keðjuverkun. Eitt leiðir af öðru og skyndilega er allt í hers höndum. Um gólfin er kútveltst og öllu sem í vegi verður er rutt um koll án þess að nokkur fái rönd við reist. Svo þegar gauragangurinn er yfirstaðinn, þannig að það beinlínis rýkur úr rústunum, stendur okkar maður upp og heldur áfram iðju sinni ... eins og ekkert hafi í skorist. 

Svo eru tvær að lokum af systkinunum sem nú keppast um að fá að sitja fyrir borðsendanum í Trip-Trap stólnum. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband