Þriðjudagur 15. maí 2012 - "Multi-taskað" á seminari í Gävle

Í dag skruppum við feðgarnir til Gävle. Erindið var að halda fyrirlestur á málstofu hjá IBF sem er sú stofnun sem ég formlega tilheyri hér í Svíþjóð en stofnunin er hluti af háskólanum í Uppsölum.

Eftir að hafa skilað Guddunni af okkur á leikskólann rétt fyrir hálftíu-leytið í morgun, tókum við lestina til Gävle. Ákvað stubbur að sofa af sér ferðina og vaknaði svo sprækur sem lækur um það leyti sem lestin rann í hlað.

Við tók svolítill göngutúr um miðbæinn sem endaði á heilmiklu vappi um ráðhústorg bæjarins.


Á ráðhústorginu ... 

Við hittum svo Terry leiðbeinanda minn í hádeginu, tókum stöðuna og fórum og fengum okkur steiktan "strömning", sem er fiskur sem þykir hnossgæti hér í Svíþjóð ... gef nú satt að segja ekki mikið fyrir það ... en jæja, hann var samt alveg ágætur. 

Svo hófst fyrirlesturinn og sat nafni á hnéinu á mér meðan ég ruddi herlegheitunum út úr mér. Hann var algjörlega eins og ljós allt þar til ég var komin að punkti nr. 3 af fimm í niðurstöðukaflanum. Þá tók hann að ókyrrast mjög og reyndist þrautin þyngri að ljúka síðustu 15 setningunum.

Það hafðist og þá tók andmælandinn við en þá var nafna nóg boðið. Gerðist hann afar ósamvinnuþýður og ég verð að segja að það að reyna að sitja fyrir svörum á þessum vettvangi með nafna í óhentugu skapi var meira en að segja það. 

Sænsku-skotin enska, erfiðar spurningar, hugsa og svara sjálfur á ensku og gólandi barn í fanginu. 

En það var engin miskunn og einhvern veginn blessaðist þetta nú allt fyrir rest en þess má geta að mér tókst að svæfa blessað barnið meðan ég sat fyrir svörum þannig að síðustu 10 mínúturnar voru mjög bærilegar.

Ég neita því samt ekki að ég var allþjakaður þegar yfir lauk. 

Nafni svaf svo í tvo tíma þannig að þá gátum við Terry rætt aðeins málin og lagt línurnar fyrir komandi átök.
Um það leyti sem við feðgarnir yfirgáfum IBF, vaknaði sá stutti og var þá alveg skínandi bjartur og hress. Lestarferðin heim gekk prýðilega og allir hressir og glaðir þegar við stigum inn fyrir þröskuld heimilisins upp úr klukkan 18.30 í kvöld.

Þannig að svona var nú fyrsta akademíska reynsla sonarins ...

En það má geta þess að verk mitt fékk góða dóma og var fyrirlestrinum sérstaklega hælt fyrir skýrleika. Já og svo fékk ég einróma lof fyrir að vera góður í þvi að "multi-taska" ... hver segir að karlmenn geti ekki "multi-taskað"?!? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Þess má geta að strömMing er tegund af síld.

Svo er æfing á fimmtudagskvöldið!

Guðmundur Sverrir Þór, 16.5.2012 kl. 20:20

2 identicon

Þetta hefur já verið almennilegt multi-task! Leiðinlegt að missa af fyrsta sameiginlega fyrirlestri PJL yngri og PJL þyngri :) 

Stjóri (IP-tala skráð) 17.5.2012 kl. 01:11

3 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Það er æfing á fimmtudagskvöldið ... alveg ljóst og það er ágætt að fá að vita hvernig á að rita strömming ... þetta var bölvað basl að reyna að finna út úr þessu.

PJL þyngri?!? :D ... Andskoti er Stjóri grófur á þessu núna ... ;)

Páll Jakob Líndal, 18.5.2012 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband