9.5.2012 | 21:53
Miðvikudagur 9. maí 2012 - Hjólatúr og áleitnar spurningar
Í dag fór sonur minn í sinn fyrsta hjólreiðartúr ... var afar tignarlegur og þótti víst bara nokkuð skemmtilegt eftir því sem fréttir herma.
Þarna er herramaðurinn á hjóinu tilbúinn til brottfarar.
---
Var að hlusta á viðtal við sálfræðing í 2012 Tapping World Summit en "Tapping" er sálfræðiaðferð sem hefur verið að ryðja sér til rúms og snýst í stórum dráttum um að segja ákveðnar skoðanir upphátt og tengja þær við tiltekin svæði líkamans og með þeim hætti á að vera hægt að hafa áhrif á starfsemi tauga, sem svo aftur skilar sér í betri andlegri og líkamlegri líðan.
Ég þekki þetta nú ekkert sérstaklega vel enda hef ég lítið kynnt mér þetta en mér skilst að eitthvað sé nú búið að prófa þetta vísindalega ... sel það ekki dýrara en keypti.
En það er ekki það sem ég ætlaði að skrifa um heldur miklu frekar það sem sálfræðingurinn sem heitir Carol Look sagði varðandi fólk sem er "overwhelmed" eða á góðri íslensku, fólk sem sér ekki út úr augum vegna alls kyns verkefna sem það tekur að sér, vegna þess að það getur ekki sagt nei og líður bölvanlega fyrir vikið.
Í slíku ástandi er hugur þess troðfullur af allskyns "böggi" og er allsstaðar en samt hvergi á sama tíma. Look lagði ofuráherslu á að í slíku ástandi væri svo mikilvægt að kyrra hugann, því meðan hugurinn væri allsstaðar en samt hvergi, væri ekki hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir. Ástæðan væri einfaldlega sú að fólk "heyrði" ekki í sjálfu sér og "heyrði" því ekki hvað það sjálft vildi gera.
Look veitti svo upplýsingar um hvernig mætti taka á þessu með Tapping.
En svo sagði hún að fjölmargt fólk vildi bara ekkert taka á þessu. M.ö.o. það kysi að hreinlega láta sér líða illa (hljómar sérkennilega - eða hvað?).
Ástæðan: Einfaldlega sú að það þorir ekki annað. Athyglisverður punktur. Það þekkir ekki annað og vill því ekki rugga bátnum með því að láta sér líða betur.
Það sem nefnilega gerist þegar hægist á huganum og fólk fer að heyra í sjálfu sér, er að þá fara að koma alls kyns pælingar og meiningar sem geta verið óþæginlegar og áleitnar. T.d. grundvallarspurningar um af hverju þú ert dagsdaglega að gera það sem þú ert að gera. Er líf þitt eins og þú myndir vilja hafa það? Hverju þarf að breyta?
Svörin geta falið í sér meiriháttar breytingar og þess vegna finnst mörgum bara best að heyra ekki spurningarnar ... og til að komast hjá því ákveður fólk að sökkva sér í vinnu eða skemmtanir eða áfengi eða sjónvarpsgláp eða tölvuleiki o.s.frv.
Allt gert til að komast hjá því að vera ein(n) með eigin huga sem fer að spyrja mann spjörunum úr strax og tækifæri gefst.
Sálfræðin er skemmtilegt fag ... :)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.