18.4.2012 | 22:13
Miðvikudagur 18. apríl 2012 - Strætóferðir - bílstjóri mánaðarins
Í dag hittum við Gudda vinsamlegasta strætóbílstjóra sem sögur fara af.
Kl. 8.20 yfirgáfum við heimilið og gegnum áleiðis niður á stoppistöðina við Gottsunda Simhall. Engum sögum fer svo sem af þeirri ferð nema að við gengum yfir "berget" eins og dóttirin kallar lítinn grashól á leiðinni. Meðan við gengum upp sungum við "upp, upp, upp á fjall" og svo var lagt blátt bann við því að syngja síðari hluta vísunnar þ.e. "niður, niður, niður, niður og alveg niður á tún" fyrr leiðin tók að liggja niður ávið.
Jú, reyndar verður heldur ekki hjá því komist að nefna að GHPL fann stein sem hún greip með sér og visnað laufblað sem hún sagði vera bleikt á litinn.
Svo mættum við strætónum og bílstjórinn tók að veifa Guddunni ákaft út um framrúðuna. Þetta var afar vinalegur náungi, sjálfsagt svona um þrítugt og átti greinilega ættir sínar að rekja til innstu Afríku. Við stigum inn og GHPL sýndi honum steininn og laufblaðið og tók bílstjórinn mjög vel undir sýninguna.
Vagninn lagði svo af stað og viti menn, og þetta hef ég aldrei upplifað fyrr ... í hvert sinn sem farþegi steig út úr vagninum kvaddi bílstjórinn hann í gegnum hátalakerfi strætósins - "takk fyrir og gangi þér vel í dag" og veifaði í baksýnisspegilinn.
Ég gat bara ekki annað en brosað ... auðvitað er þetta ákaflega lítið atriði í stóra samhenginu en engu að síður fannst mér þetta skipta mjög miklu máli. Ég brosti t.d. alla leiðina, því mér fannst svo frábært að hann skyldi hafa fyrir að gera þetta ... klárlega skemmtilegasta strætóferð sem ég hef farið í.
Það sem gerir þetta framtak bílstjórans jafnvel enn merkilegra var að enginn sem ég sá í það minnsta, hafði fyrir að taka undir kveðju hans eða veifa til baka ... ekki ein einasta hræða. Maður sá jafnvel hvernig sumir hreinlega stirðnuðu upp og drifu sig út.
Varla þarf að nefna það að auðvitað veifuðum við Guddan bílstjóranum þegar við stigum af vagninum.
Þessi hlýtur að vera valinn bílstjóri mánaðarins í hverjum mánuði.
---
Guddan er orðin mjög góður vinur strætóbílstjóranna. Þannig sýnir hún þeim alltaf eitthvað þegar hún stígur um borð, það getur verið steinn og laufblað eins og í morgun eða sár sem hún hefur á puttanum, nú eða bara eitthvað annað.
Þegar hún kom af leikskólanum var hún hinsvegar stórtækari en vanalega. Hún hafði teiknað mynd á mjög stórt rautt pappaspjald. Og þegar hún sá strætóinn vera að nálgast stillti hún sér mjög ákveðið upp á miðri gangstéttinni með pappaspjaldið í höndunum svo bílstjórinn gæti séð myndina um leið og vagninn myndi renna upp að stöðinni.
Nokkrir bílar óku framhjá áður en vagninn kom og að sögn heimildamanns vakti dóttirin mikla athygli meðal vegfarenda sem óku framhjá og jafnvel kátínu.
Strætóbílstjórinn var skælbrosandi þegar GHPL steig með myndina inn í vagninn og sagði hana vera afskaplega duglega að teikna. GHPL tók undir það og sagðist hafa teiknað þetta á leikskólanum og gerði sig svo líklega til að ræða málin áfram.
Móðirin kom hinsvegar í veg fyrir frekari umræðu enda vagninn í áætlunarakstri og ekki mikill tími gefinn til að skeggræða myndlist í miðju kafi.
---
Lauga hefur sagt að ég skrifi alltof lítið um Stubbinn í samanburði við GHPL. Það er alveg rétt. En það er einhvern veginn svo lítið af honum að frétta í samanburðinum.
Hann er bara hress, er með 8 tennur, fleiri á leiðinni, er óttalegur mömmustrákur, mikill klifrari, duglegur að ganga, lætur GHPL ekki vaða yfir sig, vaknar ennþá of oft á nóttunni, er í pössun hjá Steinunni frænku sinni bróðurpartinn úr deginum, fer í góðan göngutúr um miðjan daginn, borðar helst bara jógúrt og vill drekka vatn í morgunmat.
Maður verður auðvitað að fara að tína saman einhverjar frásagnir af drengnum ... annars fær maður það bara í bakið síðar þegar sagt verður: "Af hverju var alltaf svona lítið skrifað um mig?" ;)
Athugasemdir
Þessi stórkostlegi strætóbílstjóri heitir Amos Makajula og kemur frá Tansaníu. Hann er orðinn hálfgert celeb í Uppsölum og á sér m.a. aðdáendahópa á Facebook. Þá hefur verið skrifað um hann í UNT og fjallað er um hann á sænsku Wikipediu.
http://www.unt.se/uppsala/glad-busschauffor-lasarnas-upplanning-312064.aspx?p=2
http://sv.wikipedia.org/wiki/Amos_Makajula
Guðmundur Sverrir Þór, 19.4.2012 kl. 06:42
Það er nú alveg hreint dásamlegt að menn skuli verða frægir fyrir það eitt að vera vinalegir :D ... segir nú sitthvað um okkur hin.
Hafðu þökk fyrir þetta fróðlega komment :) .
Páll Jakob Líndal, 19.4.2012 kl. 09:59
Bara leiðrétta einn hlut... stubbur er með 11 tennur ;)
Lauga (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 16:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.