16.4.2012 | 22:30
Mánudagur 16. apríl 2012 - Allt á skriði
Allt á fullu skriði hér ... það ætlar að vera erfitt að fá þessa fyrstu rannsóknargrein mína birta hjá Journal of Environmental Psychology. Í dag kom umferð tvö af athugasemdum. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert ofboðslega hrifinn ... né heldur leiðbeinandinn minn ...
... en svona er þetta bara ... við náum þessu í gegn í þriðju umferðinni. Mig meira að segja dreymdi fyrir því þannig að ...
Svo erum við alveg að fara að senda inn rannsóknargrein nr. 2. Hún tafðist svolítið mikið vegna anna hjá okkur báðum. Ég á Íslandi og karlinn skrapp svo til Noregs. En núna erum við komnir á beinu brautina með þetta vonandi.
Ritun doktorsritgerðarinnar sjálfrar þokast líka áfram og önnur verkefni sem ég er að fást við eru einnig að potast í rétta átt.
---
Svo erum við að fá þær fréttir af leikskólanum að GHPL sé að taka stórstígum framförum, í hátterni, lundarfari og máltöku.
Þetta er eitthvað sem bæði ég og Lauga erum búin að taka eftir og ræða okkar á milli og gaman að heyra að þetta er ekki bara ímyndun hjá okkur.
Hverjar ástæðurnar eru væri vissulega gaman að vita. Við ræddum það aðeins yfir kvöldmatnum.
Mögulega gæti GHPL hafa gengið gegnum eitthvert mikilvægt þroskastig.
Mögulega gæti verið að vera ömmu hennar og Steinunnar frænku hennar hafi góð áhrif á hana.
Mögulega gæti verið að breytingar á leikskólanum væru að skila þessum árangri en nú er GHPL með stærstu börnunum á sinni deild í stað þess að vera ein af þeim minnstu.
Mögulega gæti það verið að nýjar áherslur hjá leikskólakennurunum til að "díla" við Gudduna séu að skila góðum árangri.
Sjálfsagt er þetta bara blanda af þessu öllu ... en allavegana er Syd gjörbreytt manneskja.
---
Nafni er líka í stuði. Ógurlega glaður flestar stundir. Í það minnsta mjög stutt í brosið ...
Hann sífellt að bæta sig sem klifurköttur. Hann á eftir að verða mjög skæður enn daginn.
Það verður líka gaman að sjá skapferlið hjá honum þegar hann eldist. Ég hugsa að systir hans sé búin að herða hann töluvert upp. Í það minnsta gefur hann henni lítið í leik og starfi. T.d. hefur hann tilhneigingu til að bregðast mjög harkalega við ef hún ætlar að taka af honum dót. Sá tími þegar GHPL gat leyft sér að hrifsa athugasemdalaust af honum hlutina er svo sannarlega liðinn. Nú er það meira í þá áttina að hann orgi á hana og hún bara leki niður.
Nú er bara að bíða og sjá hverju fram vindur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.