Miðvikudagur 11. apríl 2012 - Á þessum degi fyrir ári síðan ...

Það var einmitt á þessu kvöldi fyrir nákvæmlega ári síðan sem Leifur frændi minn og vinur kvaddi þennan heim. Skrýtið til þess að hugsa að árið sé liðið ... það minnir mann hressilega á það hversu hratt tíminn líður. Það minnir líka á mikilvægi þess að fara vel með tímann.

Ég var einmitt á Íslandi þennan dag í fyrra, þar sem ég kynnti niðurstöður rannsóknar á biðstofu krabbameinsdeildar á opnum fundi á LSH, auk þess að skreppa í tvö útvarpsviðtöl og sinna fleiri erindum. Upp úr klukkan hálfsjö ákvað ég að fara upp á Landakot að kíkja á Leibba frænda. Hann var sofandi og það hrygldi í honum. Ég staldraði við í svona hálftíma. Við brottför gekk ég að honum, hvíslaði að honum þakkarorðum og smellti rembingskossi á ennið.  Það var deginum ljósara að þetta var síðasta skiptið sem við myndum hittast hérna megin móðunnar miklu.  Ég hringdi í mömmu og sagði henni að drífa sig upp á spítala.

Því næst fór ég að hitta Dóra vin minn. Við fengum okkur pizzu á Eldsmiðjunni ásamt Gamla. Mjög fínt kvöld, mikið hlegið og spellað.

Þegar ég kom heim síðar um kvöldið, sagði mamma að hún hefði farið á Landakot. "Mikið er ég fegin að hafa gert það" sagði hún "hann dó klukkan hálfníu".

Þar með var tæplega 77 ára lífshlaupi frænda míns lokið. 

Mér til undrunar varð ég ekki sorgmæddur ... ég var sáttur ... ég var svo hrikalega sáttur við það að hafa haft tækifæri á því að hitta hann og geta kvatt. Og nú ári síðar er ég enn sáttari að hafa fengið þetta tækifæri. 

19 dögum eftir brottför Leibba, nánast upp á mínútu, fæddist svo Stubburinn minn hér í Uppsala. Um klukkutíma eftir að hann kom í heiminn sat ég í hægindastól í horni fæðingarstofunnar og horfði á hann og móðurina.
Allt í einu fann ég svona líka sterka pípulykt, nákvæmlega þá sömu og alltaf fylgdi Leibba. Eftir að hafa setið og þefað út í loftið í dágóða stund spurði ég Laugu hvort hún fyndi einhverja lykt.
"Já, ég finn pípulykt" svaraði hún.
"Já er það ekki? ... Karlinn er hérna ..."

Það var ekki laust við að mér vöknaði um augun. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband