Fór í "absolút" tilgangslausustu strætóferð ævi minnar í morgun. Guddan var með í för enda tilgangur ferðarinnar að fara með hana á leikskólann (skírdagur er ekki frídagur í Svíþjóð). Allt gekk eins og í sögu meðan ekið var frá Gottsunda til Årsta. Það var lesið, rifið kjaft, híað út um afturrúðuna á aðra bílstjóra (nýjasta æðið hjá GHPL er að sitja aftast í strætónum) og spjallað saman.
Svo stigum við út, gengum spölkorn. "Mér er illt í maganum" sagði Guddan allt í einu. Ég hlustaði nú lítið á það enda eru "magaverkir" mjög tíðir hjá dótturinni, sérstaklega þegar hún nennir ekki eða vill ekki gera það sem fyrir hana er lagt.
Ég hefði samt betur hlustað því hún var varla búin að sleppa orðinu þegar jógúrtstrókur stendur út úr munninum á henni. Og svo var bætt um betur. Og svo var enn bætt um betur. Þarna stóðum við feðginin á göngustíg með jógúrtpolla allt í kringum okkur auk þess sem hvítir taumar teygðu sig niður eftir "randagallanum" (þ.e. samfestingnum sem hún klæðist þegar hún fer út).
Eftir að hafa þurrkað gallann eins og hægt var farið á leikskólann til að tilkynna ástandið og svo var haldið beint heim aftur.
Þess má þó geta að GHPL hefur verið hin hressasta síðan þetta atvik átti sér stað en gagnsemi ferðarinnar var nákvæmlega engin ... maður er nú ekkert óður og uppvægur að fá að sitja í strætó þessi dægrin ...
---
Annars er gaman að sjá hvað Guddan hefur tekið mikið stökk síðustu vikur ... ég merki greinilegan mun á henni fyrir og eftir Íslandsferðina.
Hún talar skýrar, hún skilur meira, er glaðari, vingjarnlegri og samvinnufúsari en áður ... ekki amalegt það!
---
Að öðru leyti var dagurinn nokkuð hefðbundinn ... ég sat fyrir framan tölvuna og vann. Var m.a. að skrifa grein um málefni Laugavegarins í Reykjavík. Svo skrapp ég út að skokka og æfði mig svolítið að syngja.
Það er óhætt að segja að söngurinn hjá mér sé að taka á sig nýja mynd þessa dagana. Nálgunin hjá mér er gjörólík þeirri sem sífellt var verið að hamra á í náminu.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að söngur og raddtækni séu tvö aðskilin atriði, þar sem hið fyrra hvílir á hinu síðara. Í formlegu söngnámi er þó miklu meira fókuserað á fyrra atriðið og raddtækninni tilviljanakennt blandað við eftir hentugleika þannig að úr verður eitthvað mjög torskilið viðfangsefni.
T.d. er mér með öllu óskiljanlegt að verið sé að ræða við söngnemenda um hvort sjást eigi í tennurnar þegar sungið er á sama tíma og nemandinn getur ekki sungið með afslappaða tungurót. Það að geta ekki sungið með afslappaða tungurót er raddtæknilegt atriði, það hvort sést í tennurnar hefur með ákveðinn hljóm að gera sem byggist á smekk. Enda er það svo að sumir söngkennarar vilja að sjáist í tennurnar en aðrir ekki. Hinsvegar vilja allir söngkennarar að nemendur syngi með afslappaða tungurót.
Málið er einfaldlega þannig að ef ekki tekst að leysa um tungurótina mun þetta atriði með tennurnar ekki skipta neinu máli. Ástæðan er sú að með fasta tungurót mun viðkomandi nemandi mun aldrei geta sungið neitt af viti. Fyrr en síðar mun hann lenda í öngstræti hvort sem tennurnar sjást eða ekki.
Svona er það ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.