4.4.2012 | 22:03
Miðvikudagur 4. apríl 2012 - Að standa uppréttur er mikið mál
Nú er svo komið á þessum bæ að allir standa uppréttir ... ójá, sonurinn hefur nú látið af því barnalega atferli að skríða um á fjórum fótum. Hann endanlega náði tækninni meðan ég var á Íslandi. Núna gengur hann um eins og herforingi, reyndar alltaf eins og hann sé að detta fram fyrir sig og auk þess er hann svolítið valtur. Hann má því ekki við miklu ... eitt lítið pot í öxlina getur alveg dugað til að setja allt á annan endann.
Það er geysilegur munur á honum og GHPL. Á sama aldri gat GHPL alls ekki staðið upprétt hjálparlaust, þrátt fyrir ákafar tilraunir þess efnis. Stóra vandamálið hjá henni var, og víst má telja að það hafi truflað "processinn" töluvert, að hún lærði aldrei að bregðast við ójafnvæginu. Því var það svo að í hvert sinn sem hún fann að jafnvæginu var ábótavant, spenntist hún öll upp og pinnstíf datt hún svo þráðbeint á höfuðið.
Það er svolítið merkilegt og raunar rannsóknarefni út af fyrir sig af hverju GHPL hoppaði svona sannfærandi yfir þennan hluta þroskaferlisins. Hugsanleg skýring er sú að hún hreyfði sig lítið af sjálfsdáðum á fyrstu stigum ævi sinnar en ástæða þess var að við vorum á miklu flandri út um allar trissur þegar við bjuggum í Sydney og GHPL dvaldi löngum stundum í BabyBjörn. Önnur ástæða gæti verið sú að við höfðum ekki geð á því að láta hana leika sér mikið á gólfinu í íbúðinni í Sydney. Aðeins of margir kakkalakkar og kóngulær fyrir okkar smekk ;) .
Stubbi hefur á hinn bóginn fengið allt það frelsi sem hann hefur getað hugsað sér að þessu leytinu til. Og svo hefur hann auðvitað GHPL til að líta upp til.
En það er merkilegt hvað þetta er flókið ferli að standa upp á endann ... ótrúlega mikil samæfing og færni í rauninni sem maður hefur tileinkað sér, þó maður hafi lítið spáð í hana síðustu árin. Sjálfsagt er það eins og með svo margt annað ... maður myndi pæla meira í hæfninni ef mann skorti hana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.