23.2.2012 | 23:10
Fimmtudagur 23. febrúar 2012 - Tvöföld skil og viðmót
Jæja ... þá loksins var bókarkaflinn sem ég hef verið að skrifa í samvinnu við leiðbeinandann minn, sendur inn.
Það var mjög mikill léttir ... þá eru tveir hlutar af fjórum hlutum doktorsverkefnsins míns komnir nokkurn veginn í hús. Næst er að snúa sér að næstu rannsóknargrein sem er mjög langt komin hjá okkur og verður send inn í mars.
Þetta er allt saman að skríða saman og það er gaman að sjá það gerast :) .
---
Í dag var líka sendur inn abstrakt fyrir ráðstefnu sem verður í Lillehammer í sumar ... meiningin er að taka þátt í "work-shop" þar en þá leggur maður til grein og þátttakendur kommenta á greinina og spyrja mann útúr.
Ég hef aldrei tekið þátt í svona "work-shop" fyrr ... þannig a það verður spennandi að prófa það.
---
Strætóbílstjórinn á leiðinni heim í morgun var alveg sérstaklega viðmótsþýð kona. Alveg óvenju vinsamleg.
Ekki nóg með að hún heilsaði manni með virktum ... hún óskaði manni alls hins besta um alla framtíð (svona hér um bil) bæði þegar maður kom inn og fór út.
Það er náttúrulega voðalega notalegt.
Þetta fékk mig til að velta fyrir mér viðmóti mínu gagnvart fólki ... það væri mjög gaman að prófa að mæta sjálfum sér og taka sig svolítið út.
Ég er nú ekki viss um að vera neitt sérstaklega upplitsdjarfur oft á tíðum en ég hef ég tekið mig mikið á í þessu sambandi á síðustu árum.
Það sem er samt ljóður á ráði mínu er að það er voðalega stuttur alltaf þráðurinn í mér, svona eins og leiðbeinandinn minn sagði um daginn þegar við vorum að svara athugasemdum við fyrstu rannsóknargreina okkar: "Þú ert alltaf tilbúinn í einhver slagsmál". Það er mikið til í því ... stundum hef ég tilhneigingu til að bregðast dálítið hranalega við.
T.d. kom eldri maður með göngugrind á hjólum inn í vagninn í dag. Í vagninum er svona stæði fyrir barnavagna, já og göngugrindur, við erum að tala um stæði fyrir allt að þrjá barnavagna. Ég stóð í stæðinu við vagninn hans "hlunka" og mér fannst karlinn líta á mig eins og ég ætti að færa mig til í stæðinu svo hann gæti sest nákvæmlega þar sem ég stóð á þeim tímapunkti (það er sum sé möguleiki að fella niður sæti í stæðinu). Ég sá bara enga ástæðu til þess enda vagninn hálftómur og yfirdrifið rými, og því skipti engum togum en karlinn var drepinn með augnaráðinu og önnur höstugri viðbrögð voru í startholunum ef á þyrfti að halda.
Samt veit ég ekkert um það hvort karlinn hafði nokkurn skapaðan hlut í hyggju annan en að finna sér hentugt sæti án nokkurra afskipta af mér.
Ef ég segi sjálfur frá, þá fer þessi eiginleiki minn mikið í taugarnar á mér ... en ég hef ekki enn fundið lausn á honum.
Sama t.d. gerist þegar ég er úti að labba og svo kemur hjólreiðarmaður og hringir bjöllunni. Það fer alveg svakalega í taugarnar á mér. "Andsk?#?$ er þetta!! Það er nú ekki eins og ég taki allan heiminn" er það sem ég hugsa.
Þetta er náttúrulega algjör óþarfi að láta svona ...
Ég ætti að taka mér vagnstjórann í dag til fyrirmyndar ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.