22.2.2012 | 22:43
Miðvikudagur 22. febrúar 2012 - Hálka og karlremba
Það að leggja í hátt í tveggja stunda strætó- og gönguferðalag frá Gottsunda til Årsta og til baka á hverjum degi (nánast) er eitthvað sem allir ættu að prófa.
Við Lauga erum sammála um að hver ferð hafi upp á eitthvað sérstakt að bjóða ... ný ævintýri á hverjum degi.
Í morgun upplifðum við GHPL og PJPL í lengstu dvöl í strætó hingað til á leiðinni til Årsta ... vanalega tekur það strætóinn um 40 mínútur en í morgun tók ferðin um 55 mínútur.
Ástæðan var gjörsamlega fljúgandi hálka á götum Uppsala-borgar. Slík var glæran að strætóinn ók stundum svo hægt að nánast hefði verið hægt að taka framúr honum fótgangandi.
Samhliða þessari nýju reynslu komst ég líka að því að "karlremba" finnst í fórum mínum. Dálítið sérstakt fyrir mann sem meira og minna hefur verið alinn upp af kvenfólki.
Þegar við settumst upp í vagninn, þá var ég alveg hissa á því hversu hægt bílstjórinn, sem var kvenkyns og fremur ungur að árum, ók.
Ég hugsaði nú með mér að hún væri sennilega ekkert sérstaklega vön úr því að hún keyrði svona rosalega hægt ... "það er aldrei of varlega farið" hugsaði ég í hæðnislegum "tón". "Alveg týpískt!"
Það var ekki fyrr á miðri leiðinni að ég áttaði mig almennilega á því hverjar aðstæðurnar voru en þá rann vagninn, sem þó var ekki á meira en 10 km hraða, tvær vagnlengdir þegar hann ætlaði að stoppa við eina biðstöðina. Og hér er verið að tala um harmonikku-strætó sem er örugglega 15 metrar á lengd.
Þegar við stigum út úr vagninum átti GHPL í mestu erfiðleikum að standa á fótunum, sökum hálku ... meira að segja mölin sem borin er á gangstéttirnar og göturnar var hjúpuð ís og var flughál. Og það þrátt fyrir að frostlaust væri ... mjög skrýtið ... :)
Einn leikskólakennarinn sagði mér svo við komuna á leikskólann að það hefðu verið felldar niður ferðir hjá strætó vegna hálku! Hef aldrei heyrt um slíkt fyrr ...
Af þessu má sjá að ferðin var mjög lærdómsrík ...
... svei mér þá ... ég vissi ekki að ég ætti þennan karlrembu-hugsunarhátt til en svona er maður alltaf að læra ...
Já og á bakaleiðinni voru aðstæður miklu betri ... og ungur og vaskur karlmaður við stýrið. Sá keyrði ansi greitt enda leiðaráætlunin komin í tómt rugl. Aksturinn var mjög höstugur og litlu mátti þó muna þegar vagninn lenti á svellbunka. Ég veit ekki hvað kom í veg fyrir að hann fór út af ...
... en svona keyra alvöru karlmenn ;) .
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.