17.2.2012 | 23:52
Föstudagur 17. febrúar 2012 - Johnny, sushi og met
Gott kvöld á enda runnið ... keypt var sushi og með því og Johnny English Reborn settur í DVD-ið ...
Rowan Atkinson kemur alltaf vel út ... það er alveg merkilegt hvað maður getur endalaust hlegið af sömu bröndurunum, jafnvel þó fyrirfram sé alveg ljóst hvert stefnir.
---
Já og hvað er málið með þetta sushi ... mér fannst ekkert varið í það fyrir nokkrum mánuðum og mér fannst svona sushi-rúllur hreinn viðbjóður. Þær brögðust eins og þurrhey ... í kvöld át ég fjóra svoleiðis sushi-bita (það voru ekki fleiri svoleiðis bitar á bakkanum) og líkaði vel.
Þetta er alveg nákvæmlega sama og málið með ólífurnar á sínum tíma ... hreinn viðbjóður og svo bara allt í einu hrein snilld!
Skrýtið!
---
Svo gerðust þau merkilegu tíðindi í dag að stubburinn tók fimm skref óstuddur ... það er persónulegt met og allir ánægðir með það.
Það er alveg klárt má að það skemmtilegasta sem PJPL gerir núna er að labba með hjálp móður sinnar (uppþvottavélin er komin í annað sætið). Hefur ekki svo mikinn áhuga á að ég hjálpi sér og hann nennir alls ekki að labba ef maður heldur bara í aðra höndina.
Karlpútan hefur andskoti mikið skap og getur orðið eldrauður í framan og gapandi af bræði ef móðirin reynir skorast eitthvað undan ...
Systir hans getur líka látið ansi vel í sér heyra ... er ekki alveg að skilja hvaðan blessuð börnin fá þetta skap. Sennilega er það móðurættin sem ber ábyrgð á þessu :) ...
---
Plástrarnir eru að koma mjög sterkt inn þessa dagana. Þeir hafa hreinan undramátt og lækna allt ... í morgun rakst Guddan á sár á vörinni á mér. Var ekki lengi að útvega plástur sem hún skipaði mér að setja á vörina.
Einkar þægilegur staður til að hafa plástur ...
Þessi var tekin í vikunni þegar hersingin kom heim af leikskólanum ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.