Miðvikudagur 15. febrúar 2012 - Hnífar, lok og dellur

Í kaffitímanum í dag gerðist GHPL mjög ábúðarmikil þegar hún tók að ræða í löngu máli um það hversu stórhættulegur brauðhnífur getur verið.

"Strikið hérna er mjög hættulegt" sagði hún og benti á egg hnífsins. Svo endurtók hún það nokkrum sinnum. Svo benti hún á annan hníf töluvert minni. "Strikið hérna er mjög hættulegt!" 
Ég hef samt ekki hugmynd um af hverju hún kýs að kalla eggina strik.

Hún ætlaði svo að fara að taka stóra brauðhnífinn upp til að leggja enn frekari áherslu á hversu lífshættulegt þetta verkfæri væri. Var brugðist hratt við því og sýnikennslan kæfð í fæðingu. Upp úr því fjaraði umræðan út og önnur atriði eins og kókómalt urðu fyrirferðarmeiri. 

---

Annars gekk lífið nokkuð sinn vanagang í dag. Undirbúningur fyrir lok doktorsverkefnsins míns er farinn að taka á sig mynd en ég stefni að skila inn fyrir 31. ágúst. Kannski var ég búinn að segja það áður ... man það ekki.

Mér finnst það bara ágætis þróun ... sérstaklega eftir að hafa fengið í hendurnar reikninginn frá Háskólanum í Sydney. Það er ágætis summa sem þarf að greiða í skólagjöld ...

---

Ég skrapp í söngtíma í kvöld. Ágætis tími og söngtæknin er smátt og smátt að púslast saman í hausnum á mér. Best finnst mér að nota tímana í því að bera saman þá tækni sem ég tel vera rétta og þá tækni sem kennarinn segir mér að nota.

Varla þarf að taka það fram hvor tæknin er að virka betur ... kennarinn heldur að ég sé að nota sína tækni og var feykilega ánægður með árangurinn.  Taldi að mikið hefði gerst á síðustu vikum.

Ójá ... 

---

Lauga keypti sér bók um daginn ... bók um augu og augnsjúkdóma ... og núna er hún eins og barn í leikfangabúð. Hún er gjörsamlega heltekin af bókinni og notar hvert tækifæri til að ræða við mig um augu.

Ég vissi ekki að það væri hægt að ræða svona mikið um augu ...

Annars er þetta svo sem ágætis mótvægi við söngumræðuna hjá mér ...

... við erum sumsé með sitthvora delluna.

Augu og söngtækni ... anyone?! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband