12.2.2012 | 23:47
Sunnudagur 12. febrúar 2012 - Að ná árangri og verða "happy"
Ég horfði á myndbandsfyrirlestur í gærkvöldi þar sem fyrirlesarinn fjallaði um tengsl árangurs og hamingju ... man ekki hvað fyrirlesarinn hét ...
... en það sem hann sagði var að það þyrfti að snúa formúlunni við.
Á Vesturlöndum hefur formúlan verið þessi um langt skeið: Vera duglegur, ná árangri, verða hamingjusamur.
Efnislega sagði hann að við ættum að byrja á því að vera jákvæð og þá kæmi hitt í kjölfarið af mun meiri krafti en ef við værum neikvæð.
Mér finnst mjög gaman af þessum pælingum og hef lesið nokkra hillumetra af þessum "literatúr", auk þess sem ég hef hugsað um þetta í tengslum við fótbolta, leiklist og söng, já og svo sem ýmislegt fleira.
Ég er alveg sammála kauða í því að formúlan sem mest er notuð og hefur verið mest notuð á Vesturlöndum er slæm.
Nýjasta dæmið í því er sviplegt fráfall söngkonunnar Whitney Houston í gær ... hún hefur lagt hart að sér, hún hefur svo sannarlega náð árangri ... en síðasta breytan í formúlunni hefur staðið illilega á sér. Afleiðingin? Nánast stjórnlaus áfengis-, lyfja- og dópneysla í meira en áratug.
Á föstudaginn var ég einmitt að velta þessari vonlausu formúlu fyrir mér ... hættan við hana er sú að maður fer að setja samansemmerki á milli eigin persónu og árangurs. Sjálfsmynd manns fer að mótast af árangrinum.
Vafasamt? Í besta falli já. Hvað gerist ef maður tengir sjálfsmyndina við árangur? Þá er allt í lagi þegar vel gengur. En hvað gerist þegar illa gengur?
Og hvernig gengur að rífa sig upp þegar illa gengur þegar sjálfsmyndin er brotin af því að illa gengur?
Það sér hver maður að slíkt getur reynst þrautin þyngri. Sjálfur barðist ég við þetta í mörg herrans ár. Sjálfsmynd mín tengdist getu minni á fótboltavellinum. Svo sterk voru tengslin að sjálfsmyndin gat tekið heljarstökk fram og aftur, upp og niður á mínútufresti. Oft þurfti ekki nema eina feilsendingu ... og himnarnir hrundu.
Það er meira en að segja það að spila fótbolta undir þessum kringumstæðum ...
Mín reynsla er því sú að formúlan: Vinna mikið, ná árangri og verða "happy" er eitthvert mesta "crap" sem til er.
Það var því gaman að hlusta á þennan fyrirlesara segja efnislega það sama og ég hafði verið að hugsa deginum áður ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.