5.2.2012 | 23:36
Sunnudagur 5. febrúar 2012 - Meira um söng ...
Maður hefur "loksins" náð sér í fyrsta kvef vetrarins ... dagskráin riðlaðist öll þess vegna. Meiningin var að fara í Sunnerstabäcken að renna sér á snjóþotu en ég sagðist ekki nenna vera úti með bullandi kvef í brunagaddi, þannig að allt stöffið var slegið af ...
Þess í stað hefur lífið verið tekið rólega ...
---
Seinnipartinn fór ég að spá í tónlist, var að hlusta á lög og læra lög sem meiningin er að taka á hljómsveitaræfingu á morgun. Það verður gaman.
Svo er ég alveg að fá söng á heilann. Síðustu vikur hafa verið geysilega árangursríkar hjá mér, nýir hlutir að gerast og í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég vera farinn að syngja eins og maður. Að minnsta kosti eitthvað í þá veru sem alltaf er verið að segja manni að eigi að syngja ...
... og þess vegna fór ég í það að skrifa svolítið um söng, skrá niður hvað ég hef verið að gera og hvernig hlutirnir hafa verið virka. Ég skráði líka söngsögu mína sem spannar allt frá haustinu 1998.
Ég man ekki hvort ég er búinn að segja það áður ... en mér finnst það ótrúlegt að fyrst núna eftir 13,5 ár, sé maður loksins að skilja um hvað hlutirnir snúast. Það maður eigi bara góða möguleika að syngja hæstu tónana og geti gert það nokkurn veginn áreynslulaust.
En allavegana ... ég skrifaði 8 blaðsíður og mér finnst ég búinn að dekka svona 1% af því sem mig langar til að skrá niður.
Það sem ég verð að segja alveg fyrir mig er að mér finnst alveg ótrúlegt að hægt sé að læra söng í svona langan tíma án þess að labba út vitandi hvernig á að syngja ... en hinsvegar vita alveg svakalega mikið um það hvernig á ekki að syngja :) .
Síðustu daga hef ég mikið verið að líta á söngkennslu bæði á YouTube og hinum ýmsu vefsíðum. Maður les og hlustar á sömu rullurnar aftur og aftur ... rullur sem maður veit að virka bara ekki nema önnur ákveðin skilyrði séu fyrir hendi.
Það virðist oft ekki vera neinn skilningur á því hvað er orsök og hvað er afleiðing ... og mjög oft er verið að díla við afleiðingarnar án þess að nokkuð sé pælt í orsökinni ...
Cari Cole er kona sem ég var t.d. að hlusta á í dag ... hún er "celeb vocal coach" og eitthvað meira frábært.
Í einu video-i hennar er hún að tala um "nasality", þ.e. þegar mikið nefhljóð er í röddinni. Þetta er nú vandamál sem ég hef glímt lengi við.
Cole byrjar á því að segja að ef "röddin sé í nefinu" sé það venjulega vegna mjög þröngra "nefganga" (nasal passage).
Strax þarna kemst maður ekki hjá því að spyrja sig ... "ok, hvað á ég að gera í því?" Þröng nefgöng er ekki eitthvað sem maður getur reddað sí svona ... eftir því sem ég fæ best skilið þá eru nefgöngin beinastrúktúr sem er klæddur að innan með slímhúð ... jæja ok ...
Cole heldur áfram, því það er ekki nóg með að "nasal" maður sé með þröng nefgöng heldur kreistir (squeeze) hann líka vöðvana sem eru bakvið nefið ... "ok, hvað á ég að gera í því?" Strangt til tekið eru engir vöðvar bakvið nefið eftir því sem ég best veit. Það eru hinsvegar vöðvar í koki og mjúka gómnum sem skilur að nefholið og munnholið. Þetta er því ónákvæmni sem er gjörsamlega út úr öllu korti ... ég tala nú ekki um þegar maður er "celeb vocal coach". Það er ekki skrýtið að raddvandamál séu sífellt að aukast meðal frægra söngvara ...
Það er meira í þessu sem ég gæti tekið til athugunar en mig langar þó bara til að nefna eitt atriði, bara af því ég var að tala um orsök og afleiðingu. Cole segir efnislega að "nefhljóð í röddinni" sé tilkomið vegna þess að bakhluti tungunnar sé of hátt uppi og blokki því loftflæði út um munninn. Hún leggur því til æfingar sem byggjast á því að láta bakhluta tungunnar síga.
Ég hef heyrt þetta milljón sinnum og ég hef æft þessu svipað milljón sinnum og ég get fullyrt að þessi nálgun gengur ekki upp nema ef sjálf tungurótin og hálsinn séu laus. Sé það hinsvegar ekki málið myndast spenna á milli tungurótar og bakhluta tungu sem skapar bara önnur vandamál, fyrir utan hvað það er vont að gera þetta.
Á hinn bóginn ef tungurótin og hálsinn eru laus, þá er "nefhljóð í röddinni" örugglega ekki vandamál ... :)
Hver er þá niðurstaðan? Sennilega er grunnorsökin of spennt tungurót eða of spenntur háls, sem svo aftur þrýstir tungunni upp og afleiðingin er "nefhljóð í röddinni".
Að minnsta kosti er það þannig hjá mér að ef minnsta spennan gerir vart við sig í tungurótinni og hálsinum þá er komið nefhljóð ... gæti ég hinsvegar að því að hafa þetta laust, þá fer röddin ekki í nefið.
En þegar hér er komið sögu eru sjálfsagt allir hættir að nenna að lesa þessa færslu ... :)
Athugasemdir
Ég var ekki hætt að lesa! Ég vildi fá meira um þetta mál!
Anna Klara (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 20:30
Já ... auðvitað :D
Páll Jakob Líndal, 6.2.2012 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.