2.2.2012 | 23:13
Fimmtudagur 2. febrúar 2012 - Nokkrar línur
Alveg rífandi góður dagur að baki ...
Byrjaði á því að mæta með GHPL 20 mínútum fyrr á leikskólann í morgun, í samanburði við gærdaginn. Meiningin er að koma henni í skólann kl. 9 á morgnana. Undirbúningurinn tekur bara svolítið langan tíma. Ég var kominn á fætur kl. 7 í morgun en komst ekki út úr húsi fyrr en rétt fyrir kl. 8.30.
Systemið á auðvitað eftir að pússast svolítið til ...
Svo líða alveg 45 - 50 mínútur frá því maður lokar hurðinni hérna heima og þar til maður labbar inn um hliðið á leikskólanum ... svo þarf maður að koma sér til baka ... þannig að túrinn er í heildina tekur tíma sinn.
En dóttirin skal í skólann þannig að það þýðir ekki að pípa neitt um þetta ... tek bara með mér góða bók í vagninn og les á heimleiðinni.
Ég hef verið að lesa bókina hans Jan Gehl, eins og ég nefndi um daginn ... góð bók ... og góðar pælingar. Eins og vænta má er mikil skörun við það sem hann er að segja og það sem ég er að gera, enda erum við báðir að fást við upplifun fólks á götum úti. Hann kallar bara hlutina öðrum nöfnum en ég en í prinsippinu erum við á sama báti.
Gehl er nú ekkert að skafa utan af hlutunum þegar hann segir að uppbygging borga á síðustu áratugum sé afskaplega slæm. Hann er búinn að setja niður á blað fjölmargt af því sem ég hef verið að pæla síðustu misseri. Sem er auðvitað afar gagnlegt fyrir mig.
---
Vetur konungur hefur aðeins minnt á sig í dag og kvöld. Núna er hitastigið eins og það var vikum saman síðasta vetur ... -15°C núna ... gæti verið verra.
Ég skrapp út að skokka í kvöld og svei mér þá ef ég er ekki bara með talsvert kuldaþol eftir veturinn í fyrra. Mér fannst þetta ekkert svo rosalegt ...
---
Svo get ég bara ekki stillt mig um að minnast aðeins á fyrirtækið Já ... "Símaskrána" öðru nafni.
Eins og stóð í einu kommenti sem ég las í dag, þá er það með ólíkindum að fyrirtæki sem nánast einokar markaðinn og ætti hér um bil að geta rekið sig sjálft, hafi tekist að koma sér í slíkan bobba. Það sem kemur mér samt mest á óvart í þessu er hvað hægt er að skapa mikil læti utan um símanúmeraskrá.
Einu sinni var símaskráin alltaf með sama lúkkinu ... kort af Íslandi á kápunni og landinu var deilt upp eftir svæðisnúmerum. Svo var hún bara í misjöfnum lit eftir árum. Ekkert "fansí" en skilaði nákvæmlega sama árangri.
Aldrei hefði mann grunað þá að símaskráin gæti orðið slíkt þrætuepli í íslensku samfélagi að fólk skiptist í fylkingar með og á móti ... að fólk hreinlega þyldi ekki símaskrána, skilaði henni eða jafnvel henti henni.
Hér í Uppsala er símaskráin eitthvert það mest óspennandi sem fyrirfinnst, held ég bara ... of ég veit ekki til þess að neitt fjaðrafok hafi orðið vegna hennar ... þá sem vantar símanúmer fletta upp í skránni og punktur.
... að lokum ... límmiða-"múv" dagsins hjá Já var heimskulegt og lítilmannlegt ... fyrirtækið sóttist eftir þjónustu Gillz þegar allt lék í lyndi og nú þegar illa árar er stokkið frá borði, alveg eins og ítalski skipstjórinn gerði um daginn þegar skemmtiferðarskipið hans strandaði.
Annars er umhugsunarefni, kannski ekkert nýtt svo sem, hvað "frægðin" er óskaplega fallvölt. Stuttu áður en allt hljóp í baklás hjá Gillz var hann gjörsamlega út um allt ... og ég man að ég hugsaði hvað hann var í raun búinn að koma ár sinni vel fyrir borð ... því ekki leiddist honum athyglin.
Það var alveg á hreinu að drengurinn væri búinn að standa sig vel og nýta sitt tækifæri vel ... en svo hrynur bara allt eins og spilaborg ... á mettíma ... og þessi maður er gjörsamlega búinn að vera a.m.k. á því "formati" sem hann hefur verið síðustu ár.
Rétt í lokin ... ég held að þessi viðurkenning sem Já fékk frá Félagi kvenna í atvinnurekstri sé einhver mesti bjarnargreiði síðustu missera ... og er e.t.v. glöggt dæmi þess að "konur eru konum verstar" ;) .
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.