1.2.2012 | 22:22
Miðvikudagur 1. febrúar 2012 - Alvöru verkefni í gangi
Nú hefur alvaran hafist ... Lauga farin að finna aftur eftir langt frí frá vinnu. Síðuhaldari er tekinn alfarið við stjórnartaumunum þegar morgunverkunum er sinnt.
Og engin vettlingatök nú ...
---
Ég hef síðustu daga verið að vinna í skýrslugerð fyrir Djúpavogshrepp. Það er framhald ferðamannakönnunarinnar sem ég vann að í fyrra.
Verið er að kanna upplifun fólks á svæðinu og afstöðu til náttúruverndar. Ég tek nýjan vinkil á náttúruverndina því ég er að kanna hvort afstaða fólks ráðist af því hversu vel fólki finnst náttúran hjálpa því að "hlaða batteríin".
Nálgunin er því það sem kallast má "ego-centrísk" ... það er að fólk einfaldlega vilji stuðla að verndun náttúru vegna þess að það sjálft hefur persónulegan hag af því að upplifa lítt raskaða eða óraskaða náttúru.
Þetta finnst mér vera mjög áhugaverður vinkill og lyftir umræðunni upp úr þeim hjólförum sem hún er vanalega í ... s.s. átökum um siðferði, líffræðileg vistkerfi og fjárhagslegan ávinning.
---
Svo eru í burðarliðnum tvær kostnaðaráætlanir fyrir tvær heilbrigðisstofnanir en óskað var eftir ráðgjöf varðandi endurbætur á umhverfi sínu.
Bæði tilfellin eru mjög áhugaverð og vandasöm, og gleðiefni að fólk skuli vera farið að leita í smiðju umhverfissálfræðinnar þegar kemur að því að betrumbæta umhverfið.
Betrumbætur á gangi dag- og göngudeildar krabbameinslækninga á LSH við Hringbraut, sem samtökin Umhverfi og vellíðan stóðu fyrir, hafa þótt til fyrirmyndar og hafa orðið mörgum hvati.
Þessa mynd tók Páll Jökull þegar verkefninu á krabbameinsdeild LSH lauk formlega með myndagjöf. Þá höfðu Umhverfi og vellíðan staðið fyrir sálfræðilegri rannsókn á þeim breytingum sem gerðar voru og svo var klikkt út með þessari myndagjöf með stuðningi Actavis.
Á myndinni eru Margrét Tómasdóttir frá LSH og fulltrúi Slippfélagsins í Reykjavík en Slippfélagið styrkti verkefni með því að gefa málningu og mála veggi á biðstofu og gangi deildarinnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.