26.1.2012 | 23:09
Fimmtudagur 26. janúar 2012 - Magaveiki, salat og væl
Þessi dagur hefur nú ekkert verið neitt sérstakur ... sérstaklega þó fyrri partur hans. Upp úr miðnætti síðustu nótt fór að örla á magaveiki hjá síðuhaldaranum, svona rúmum klukkutíma eftir að spúsan tók að finna fyrir einkennum.
Nóttin fór sum sé í það að fást við einkenni magaveikinnar ...
Í dagrenningu fórum við að bera saman bækur okkar og niðurstaðan var sú að súrmjólkin sem við borðuðum í gærkvöldi væri orsakavaldurinn, því blessuð börnin fengu ekki súrmjólk úr sömu fernu og hafa ekki sýnt nein einkenni ... sem er auðvitað algjörlega frábært!
Það sem er svo auðvitað langskemmtilegast við að vera veikur er það að verða frískur aftur, því þá finnur maður svo óskaplega vel hvað það er dásamlegt að vera frískur. Ég vildi að ég hefði þetta oftar að leiðarljósi í hinu daglega amstri í stað þess að líta á það sem sjálfsagðan hlut að vera frískur.
Maður einhvern veginn tekur góðri heilsu svolítið eins og sjálfsögðum hlut, og fattar ekki mikilvægi hennar fyrr en krankleiki sækir á mann.
Slíkt á nú við um fleiri þætti í lífinu ... og þess vegna á spakmælið "enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur" svo oft vel við.
---
Seinni partinn í dag þegar ástandið var orðið þannig að mögulegt var að vinna svolítið, sat Guddan hjá mér í vinnuherberginu og las bók. Þetta hefur greinilega verið mjög merkileg bók því að hún endurtók hvað eftir annað: "Pizza-salat"!!
Ég reyndi að fá upp úr henni hvað "pizza-salat" væri ... en það var fullkomlega árangurslaust ...
Pizza-salat!!
---
Á síðustu vikum hefur færst í vöxt að GHPL tilkynni, þegar þannig árar, að hún sé "bálreið". Þetta er dálítið merkilegt, því við Lauga notum aldrei þetta orð ... þannig að uppruninn er dálítið óljós ... sennilega eru þó Strumparnir orsakavaldurinn.
Þeir voru það að minnsta kosti þegar GHPL var alltaf að segja "reipi, reipi" hér fyrir nokkrum mánuðum.
---
"Pabbi ... hættu þessi væli" er setning sem mjög oft heyrist á heimilinu og þá sérstaklega úr einum tilteknum 3,5 ára gömlum munni og þá helst þegar við erum ekki alveg sammála um hlutina.
Mér finnst stundum eins og stubburinn skilji ekki almennilega sjálfur hvað hann er að segja, því iðulega er ég ekki baun að væla þegar gripið er til þessa orðavals.
Uppruna þessa má að öllum líkindum rekja til mín og þá til þeirra tilfella þegar ég bið minn ástsamlegan son, herra Pípus, vinsamlegast um að slökkva á hátalaranum.
---
Það er alveg klárt hver er mesti svampheilinn á þessu heimili ...
... og alveg klárt hver þarf að fara að passa hvað hann segir ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.