19.1.2012 | 23:21
Fimmtudagur 19. janúar 2012 - Eitthvað að gerast
Nokkrir ágætir áfangar sem náðust í dag.
Þar bar hæst viðtal sem Læknablaðið tók við mig varðandi sem rannsókina á krabbameinsdeildinni sem ég í slagtogi við aðra stóð fyrir á síðasta ári. Það er alltaf gaman þegar einhver sýnir áhuga á því sem maður er að gera.
Viðtalið verður sennilega birt í næsta eða þarnæsta hefti Læknablaðsins.
Svo ræddi ég við stórvinkonu mína, Auði Ottesen í dag. Allaf hressandi að spjalla við hana. Við vorum að ræða verkefni sem eru á döfinni hjá okkur. Mjög spennandi verkefni sem að sjálfsögðu tengjast umhverfissálfræði.
Seinnipartinn lá ég svo yfir mjög skemmtilegri rannsóknargrein þar sem verið var að kanna tengslin milli dálætis (preference) og sálfræðilegrar endurheimtar, en hið síðarnefnda er það sem doktorsverkefnið mitt snýst um.
Það er alveg óþarfi að óttast þetta mikla hugtak "sálfræðileg endurheimt", því með svolítilli einföldun má segja að sálfræðileg endurheimt sé það sama og "hlaða batteríin" ... ekkert flókið við það.
Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að dálæti okkar á tilteknu umhverfi er að töluverðu leyti tilkomið vegna mats okkar hvort umhverfið hjálpi okkur að hlaða batteríin. Þetta á sérstaklega við ef við erum þreytt.
Þar sem nútíma borgarumhverfi er mjög ágengt og þreytandi er dálæti okkar á því almennt minna en á náttúrunni, þar sem við teljum okkur í flestum tilfellum hafa tækifæri til að hlaða batteríin.
En jæja ... þetta var nú bara smá umhverfissálfræði ... hún er skemmtileg ...
Já ... af hverju ekki að nefna það hér að ég verð einmitt með námskeið í umhverfissálfræði hjá Endurmenntun HÍ í mars nk. ... tvö pottþétt kvöld ...
Tékkið á þessu: Austurvöllur - Hlemmur: Áhrif umhverfis á líðan fólks
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.