Föstudagur 30. desember 2011 - Að kunna að segja nei og kunna að velja

Húsfreyjan á heimilinu var að taka til morgunmatinn í morgun, þegar hún opnaði ísskápshurðina þannig að hún rakst af nokkru "afli" í ristina. "Áááiii" heyrðist í henni stundarhátt.  GHPL stökk umsvifalaust af stólnum sínum, skreið undir borðið og þaðan í áttina að ísskápnum þar sem móðirin stóð.

Þegar hún kom að fætinum, leit hún upp og spurði: "Allt í lagi mamma?"
"Já, já ... þetta er nú allt í lagi, Guðrún mín."

Dóttirin taldi samt fulla þörf á að kyssa á bágtið og það gerði hún samviskusamlega. Svo skreið hún aftur undir borðið og klifraði upp á stólinn sinn. 

Stuttu síðar rak faðirinn sig í (kannski meira svona til að kanna stöðu sína innan veggja heimilisins) ... og gaf frá sér kannski heldur meiri óhljóð en tilefni var til.  
"Ég meiddi mig ... viltu kyssa á bágtið?", spurði hann sárþjáður.
GHPL leit við. "Neihei!!"

Þar með var það mál afgreitt.

---

"Má ég fá mjólk?", sagði dóttirin þegar hún sat niðurnegld fyrir framan Mikka mús í kvöld. Já, loksins var stundin runnin upp. Hennar hafði verið beðið allt frá því fyrir kl. 10 í morgun.
"Já, já ... viltu þá aðeins passa litla bróður þinn meðan ég fer fram og næ í mjólkina?" sagði móðirin.
"Neihei!!"

Ég skil ekki alveg hvar blessað barnið hefur lært þetta "neihei" ... ?!?

---

Talandi um að fá hlutina í "feisið" ... ég hef svo sem áður rætt um það á þessu bloggi ... en ég var með þá hugmynd fyrir nokkru síðan, þ.e. þegar Guddan var töluvert yngri en hún er núna, að börn lærðu þvergirðingshátt og neitun einfaldlega vegna þess að uppaldendur væru ávallt og eilíflega að segja "nei" og "nei" og "nei" við þau.

Einfalt prinsipp þar að baki ... börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Við Lauga ákváðum því að nota orðið "nei" mjög sparlega í öllum okkar samskiptum við Gudduna. Reyna frekar að beina athygli hennar í aðrar áttir eða finna lausn á málinu ...

En hvað???

Niðurstaðan er eitt mesta nei-barn í heimi ... hún segir nei við öllu.

"Heitirðu Guðrún?"
"Nei"

"Hvað ertu gömul?"
"Tveggja daga."
"Nú? Ertu ekki þriggja ára?"
"Nei!"

"Eigum við að koma í strætó?"
"Nei!" 
"Eigum við að fara á leikskólann?"
"Nei!" 
"Eigum við að lesa?"
"Nei!" 
"Viltu púsla?"
"Nei!"

"Viltu horfa á Mikka mús?"
"Já!"

Þetta síðasta er undantekningin sem sannar regluna ;) .

Þrátt fyrir þetta er alveg ljóst að GHPL er besta dóttir í heimi ... að mínu mati ;) . 

---

Í dag hef ég verið að vinna í markmiðum ... svolítið verið að móta næstu misseri ... áramótin eru svo sannarlega tími til þess.

Er kominn með 30 markmið sem ég hef verið að dýpka og útfæra.

Sumarið 2009 skrifaði ég 100 markmið eftir að hafa lesið það í bók eftir Jack Canfield að slík gæti verið gagnlegt.
Þessi markmið hef ég svo lesið reglulega yfir síðastliðin ár en núna er ég að taka þau til gagngerrar endurskoðunar. Það er er athyglisvert í þessu samhengi er hvað fókusinn hjá mér hefur breyst mikið því mörg þeirra markmiða sem ég setti á blað þarna um árið, skipta mig engu máli núna.

T.d. markmið um að komast á topp Kilimanjaro, hæsta fjalls Afríku. Ég hef komist að því að mig langar bara ekki baun til þess eins og staðan er í dag.
Ég hef þráfaldlega spurt sjálfan mig af hverju ég ætti að fara upp á þetta fjall? Eftir töluverðar vangaveltur komst ég að því að ég vildi helst fara upp á þetta fjall til að geta sagt öðrum að ég hefði farið upp á þetta fjall?!?

En af hverju?
Jú, til að fólk myndi dást að mér í 5 sekúndur ... jafnvel 10 eða 20 ...

Og hvað svo?

Ég veit það ekki ... 

Ekki skilja þetta sem svo að mér finnist það að komast á topp Kilimanjaro vera eitthvað bull. Alls ekki. Ég er bara að tala fyrir minn munn.
Aðrir geta auðvitað fengið mikið út úr því að ganga á toppinn og það er bara frábært.

Ég á bara við ... að ef eina ástæðan til að komast á topp Kilimanjaro er til þess að geta sagst hafa gert það til að fá mjög skammvinna aðdáun, þá ætti maður að staldra við. Kannski finnur maður einhverja göfuga ástæðu innra með sér og þá fer maður að sjálfsögðu. En kannski finnur maður hana ekki og þá ætti maður kannski bara að sleppa því ... eða hvað?

Ég ætla að minnsta kosti að gera það og þess vegna hef ég rifið miðann sem á stóð "Komast á topp Kilimanjaro". Þess í stað set ég meiri kraft í "Sjálfboðaliðastarf í Afríku" og "Hálendisferð á hestbaki" sem dæmi séu tekin. 

Verkefnin verða í mínum huga að hafa dýpri merkingu heldur en einhverja aðdáun annarra. Þau verða að hafa einhverja þýðingu ... gera mig að betri manni ... ef svo hátíðlega má komast að orði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband