22.12.2011 | 23:44
Fimmtudagur 22. desember 2011 - Hlaupabóla og íslensk tónlist
Það var aldrei að Guddan fengi ekki hlaupabóluna ... já takk, þetta er rosalegt! Síðasta nótt var heldur óskemmtileg þar sem GHPL grét af kláða drjúgan hluta nætur og hafnaði algjörlega allri aðstoð sem henni stóð til boða.
Ég hef svo sem ekki mörg tilfelli til viðmiðunar, en þetta tilfelli á heimilinu hlýtur að vera töluvert krassandi. Meira segja svo að ég kann hreinlega ekki við að sýna myndir af blessuðu barninu í þessu ástandi hér á blogginu, en búkurinn er alsettur myndarlegum, vökvafylltum útbrotum bæði að framan og aftan.
---
Dagurinn hefur farið í jólaundirbúning, þar sem ég bjó til eins og eitt jólakort til að senda rafrænt, fór í bæinn ásamt nafna og keypti nokkrar jólagjafnir. Restin verður svo tekin á morgun ... enda svo sem ekkert annað í stöðunni ef yfirleitt á að kaupa gjafirnar fyrir jól.
Já og svo keypti ég "antihistamín" fyrir GHPL ... sem er kláðastillandi ... vonandi að það virki vel í nótt :) .
---
Svo datt mér í hug að hlusta svolítið á íslenska tónlist í dag meðan ég var í kortadæminu. Yfirleitt hlusta ég frekar lítið á íslenska tónlist þannig að þetta var kærkomin tilbreyting (talandi um tilbreytingu sbr. blogg gærdagsins) ... en jæja ég hlustaði á hitt og þetta.
Að einhverju leyti hlýt ég að vera tónlistarlegur bastarður því það er alveg sama hvað ég hlusta á Mugison ... ólík lög eða sömu lögin aftur og aftur ... ég er bara ekki að ná honum. Meðan allir eru að pissa í sig af hrifningu er ég bara ekki með'etta. Ég ætla samt að halda áfram og sjá hvort ég "vitkist" ekki eitthvað.
En þessi "fáviska" er jafn borðleggjandi þegar kemur að bæði Sigurrós og Björk. Ég fór á Bjarkartónleika um daginn þegar ég var á Íslandi ... hafði áður lesið einhverja gagnrýni í Mogganum frá þessum tónleikum, þar sem gagnrýnandinn var nærri farinn yfir móðuna miklu af hrifningu.
Þrátt fyrir að hafa verið eins opinn og móttækilegur og mér var frekast unnt, þá hefði ég ekki gefið þessum tónleikum meira en 5 af 10 mögulegum.
Þetta er voða leiðinlegt að vera svona ...
Mér til bjargar get ég þó sagt að ég hlustaði svolítið á Valdimar sem mér hefur verið sagt að sé góð hljómsveit ... og já, ég er alveg inn á þeirri línu. Þeir eru nokkuð þéttir ... og söngvarinn hefur flotta rödd finnst mér, þó kannski söngtæknilega sé hann ekkert sérstaklega góður. En það skiptir ekki máli í þessu samhengi.
Mér fannst líka Of Monsters and Men fín ... þarf samt að hlusta meira á hana til að dæma almennilega.
Annars held ég að menn ættu bara að leggja meira upp úr þessu og minna upp úr hinu ;)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.