21.12.2011 | 23:51
Miðvikudagur 21. desember 2011 - Hlaupabóla og jólastemmning
Þessi dagur hefur nú farið fyrir heldur lítið ... óhætt að segja að lítið sem ekkert af viti hafi verið gert. Stundum eru dagarnir þannig og við það verður að una, þó svo litli púkinn á öxlinni sé iðinn að láta mann vita af aðgerðarleysinu.
Það er því best að slá bara botninn í þennan dag ... fara að leggja sig og vakna hress og glaður í fyrramálið. Á morgun verða víst vetrarsólstöður eftir því sem ég best veit.
Guddan glímir nú við hlaupabóluna af fullum þunga ... útbrot um allan strokkinn, kláði og fleira fínt. Hefur fengið að borða þrjá græna frostpinna vegna ástandsins ásamt því að horfa á video. Það fylgja því kostir og gallar að vera veikur ...
Jólaandinn fer nú vonandi að koma yfir mann ... þetta jólastand síðustu ár hefur svolítið misst marks þar sem jólastemmningin hefur að mestu látið á sér standa. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig hægt sé að vekja upp þessa stemmningu og af hverju maður finnur svona lítið fyrir henni.
Í bókinni hennar Margrétar Pálu, þeirri sömu og ég vísaði til um daginn, hef ég fundið bestu skýringuna hingað til. Þar segir að jólin feli ekki í sér neina tilbreytingu lengur. Almennt feli þau bara í sér að meira sé af öllu þessu "hversdagslega".
T.d. borðar maður nánast á hverjum degi góðan mat, það er alltaf verið að narta í eitthvað sælgæti, drekka svolítið gos, kaupa sér eitthvað smávegis, gefa eitthvað smávegis, tala við fólkið heima á Íslandi, það er verið að leiga sér video o.s.frv. o.s.frv.
Og á jólunum er bara gert meira af þessu öllu ... sem er náttúrulega engin tilbreyting heldur bara óhóf.
Eftir að ég fattaði þetta, fór ég að hugsa meira út í tilbreytinguna. Þá rifjaðist upp fyrir mér mjög óformlegt jólaboð sem var heima hjá Huldu systur og Mugga fyrir nokkrum árum. Ég og mamma höfðum verið í jólaboði á jóladag og þegar við komum heim þá hringdi ég í Huldu sem spurði hvort við vildum ekki bara kíkja í heimsókn. Hún sagðist geta boðið upp á smá hangikjöt og með'í ... ekkert massíft dæmi neitt.
Þetta kvöld sem leið við skemmtilegt spjall og rólegheit og áhorf á einhverja íslenska mynd er sennilega besta jólamóment lífs míns ... þetta var eitthvað svo mikil tilbreyting frá hversdeginum, þó ég átti mig ekki alveg á því, enn sem komið er, í hverju tilbreytingin fólst.
En þarna finnst mér ég vera kominn með einhvern grundvöll til að vinna út frá í því skyni að gera jólin að þeim tíma sem þeim ber ... því sannarlega eru þessar hátíðir mikilvægur tími í margvíslegum skilningi og engin ástæða til annars en að hafa þær ánægjulegar ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.