20.12.2011 | 23:04
Þriðjudagur 20. desember 2011 - Jólahlaðborð, hlaupabóla og Kódak-móment
Í dag skrapp ég til Gävle. Sú heimsókn var ekki af verri endanum því mér hafði verið boðið þangað í jólahlaðborð Institutet för bostads- och urbanforskning (IBF) sem er batteríið hér í Svíþjóð sem ég formlega tilheyri.
Réttir dagsins á hlaðborðinu voru afar ljúffengir og rammsænskir held ég, t.d. síld, jólaskinka, kjötbollur og Jansen's kartöflur (held ég að það heiti), já og þá var julmust drukkið með. Svo voru fjörugar samræður við borðið og bara allt í þessu fínasta.
Eftir matinn vann ég fram til kl. 18.30 með leiðbeinanda mínum en nú erum við að leggja lokahönd á svör okkar við athugasemdum sem gerðar voru við greinina sem við sendum til birtingar hjá tímaritinu Journal of Environmental Psychology þann 20. janúar sl. Nú er bara að vona að ritstjóri tímaritsins verði svo vænn að samþykkja greinina til birtingar. Við erum býsna bjartsýnir á það enda er þetta "rock solid" grein og góð rannsókn sem þarna var gerð.
---
Guddunni brást ekki bogalistin og var heima í dag með hlaupabólu. Enn sem komið er eru útbrotin fremur væg og hún sjálf bara hress þrátt fyrir að vera með 38°C.
Þristurinn tekur stórstígum framförum á hverjum degi. Átti stórleik þegar hann stóð upp undir matarborðinu. Er klárlega sá eini í fjölskyldunni sem getur gert slíkt án þess að rekast upp undir. Því miður var myndavélin ekki í seilingarfjarlægð ... sannarlega Kodak-móment þar.
Í það heila er sumsé allt í himnalagi ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.