Fimmtudagur 24. nóvember 2011 - Flæði, Ronja og Eric Carr

Ég er búinn að sitja við skriftir í bókstaflega allan dag ... og dagurinn hefur gjörsamlega þotið áfram. 

Í jákvæðari sálfræði er fyrirbærið þegar maður gjörsamlega gleymir sér í viðfangsefni sínu, kallað flæði. Eftir því sem ég fæ best skilið næst flæði þegar viðfangsefnið er krefjandi en þó í fullu samræmi við getu einstaklingsins. Sá sem á heiðurinn að þessari speki heitir Mihaly Csikszentmihalyi bandarískur háskólaprófessor af ungverskum ættum.

---

Hjá Laugu var dagurinn af allt öðru sniði, þar sem hún var á stöðugum þönum frá klukkan 11 í morgun til klukkan 19 í kvöld. Og Þristurinn með.

Svo voru tímamót í danskennslu hjá GHPL þar sem hún í fyrsta skiptið fór ein (lestist: án Laugu) inn í kennslustofuna og tók fullan þátt. Ástæða þessara sinnaskipta er að nú hefur Guddan eignast vinkonu í dansinum. Sú heitir hvorki meira né minna en Ronja. 

---

Það má einnig geta þess að í dag eru 20 ár síðan sá mikli söngvari Freddie Mercury lést. Já, tíminn er fljótur að líða.

En svo einkennilega vill tíl að í dag eru líka 20 ár síðan trommuleikari KISS Eric Carr lést. Ég man enn það augnablik þegar ég rak augun í frétt af dauða Eric, en birtist hún mér eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það segir nú kannski mest um fréttaflutninginn á þessum árum því Eric hafði barist við sjaldgæfa tegund af hjartakrabbameini í heilt ár áður en hann dó.

Það er fremur kaldhæðnislegt til þess að vita að Eric Carr hafi verið fyrstur meðlima KISS til að kveðja þennan heim en hann var, að sögn kunnugra, stakur reglumaður og í mjög líkamlega góðu formi. Það verður nú ekki sagt um fyrirrennara hans, trymbilsins Peter Criss, sem gafst upp á verunni í KISS árið 1979 eftir að dóp og áfengisdrykkja höfðu tekið öll völd. Það verður heldur ekki sagt um gítarleikarann Ace Frehley sem auk þess að drekka ótæplega, stofnaði sér og samborgurum sínum margoft í lífsháska með óhefluðu háttarlagi sínu. Báðir þessir menn lifa enn ...

En svona er þetta bara ... hér er Eric Carr árið 1982 í banastuði ... allir eldri en 5 ára og með einhvern vott af beini í nefinu þekkja þennan rokkslaga ... sem upphaflega gerði síðuhaldara að KISS-aðdáanda, sennilega til eilífðarnóns ... ;) 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband