23.11.2011 | 23:22
Miðvikudagur 23. nóvember 2011 - Standup, kjólar og Kárahnjúkavirkjun
Helstu fréttir héðan eru þær að sonur minn er farinn að standa upp einn og óstuddur í rúminu sínu ... þeir dagar að maður geti bara hent honum inn í rúm og málið er afgreidd eru liðnir.
GHPL er í miklu "nei-stuði" þessa dagana ... kannski ekkert nýtt ... en það er hér um bil nákvæmlega sama hvað maður segir svarið er ávallt og eilíflega "nei". Það er samt ekki svo að hún fáist ekki til að gera hlutina ef maður fylgir fast á eftir. Þetta er einhvern veginn meira í nösunum á henni.
Sokkabuxur og kjóll eru aðalmálið og þegar stungið er upp á buxum fær maður eitt stórt "NEI" í andlitið. En málið er að sjálfsögðu ekki það einfalt að hægt sé að færa stúlkunni hvaða kjól og hvaða sokkabuxur sem er. Ónei ... það eru bara tveir kjólar og tvennar sokkabuxur sem koma til greina. Þessi þvermóðska í dótturinni fer brátt að verða til vandræða, því kjólarnir eru orðnir svo stuttir að þeir eru meira að verða eins og blússur og sokkabuxurnar svo snjáðar að þær eru orðnar gagnsæjar.
En dóttirin gefur sig bara ekki með þetta.
Í dag og síðustu daga hef ég mikið verið að spá í streitu, enda verið að taka sama efni um það merkilega fyrirbæri, sem af náttúrunnar hendi er varnarmekanismi til að auka lífslíkur fólks en hefur svo ærlega snúist upp í andhverfu sína að hún er orðin ein helsta heilsufarsógn nútímasamfélaga.
Já, og svo annað ... ég hef svolítið verið að fylgjast með umræðunni um Kárahnjúkavirkjun. Um arðsemi virkjunarinnar eða öllu heldur ekki arðsemi virkjunarinnar. Ég verð bara að segja það fyrir mig að þessi framkvæmd er örugglega sú brjálaðasta sem átt hefur stað á Íslandi og þó víðar væri leitað.
Og nú blasir ískaldur veruleikinn við ... eftir að búið er rústa stærsta óraskaða víðerni Evrópu er niðurstaðan sú að þetta er ömurleg fjárfesting. Málið snerist, eins og raunar hefur alltaf verið vitað, ekki um neitt annað en vinsældir arfaslakra stjórnmálamanna, undir þeim formerkjum að halda þyrfti hjólum atvinnulífsins gangandi ... þvílíkir sökkerar!
Athugasemdir
Til hamingju með að vera búin að finna íbúð, þó ekki sé nema tímabundið! Eruð þið byrjuð að pakka niður? :)
Og þetta er svei mér kröftugur strákur sem þið eigið! Flottur gaur. Ekki seinna vænna að lækka botninn í rúminu áður en hann vippar sér framúr og labbar sjálfur inn í eldhús að fá sér að borða, slíkur er farturinn á honum :)
Knús á línuna, sérstaklega stubbinn og frk. Nei :)
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 24.11.2011 kl. 21:00
Kærar þakkir fyrir hamingjuóskirnar!
Pökkun er alls ekki hafin :) og óvíst hvenær það gerist ;) ... en það sem ég get sagt á þessari studnur er að sennilega verður botninn lækkaður áður en farið verður að pakka :) .
Ég er viss um að Þristurinn og frk. Nei senda líka knús á línuna. Já, já og við Lauga líka ... Dóri verður samt að raka sig áður en ég knúsa hann ;) .
Páll Jakob Líndal, 24.11.2011 kl. 23:49
studnur?!? ég veit ekki hvaðan þessi ósköp komu þetta átti að vera "stundu"
Páll Jakob Líndal, 24.11.2011 kl. 23:51
Sem ég heiti Dóri segi ég og skrifa á þessari studnu að rakvélin verður dregin fram fyrir næsta knús! Þess verður að sjálfsögðu einnig krafist af síðuhaldara þar sem fátt er óyndislegra en að knúsa nokkurra daga gamla skeggbrodda fullvaxins karlmanns!
Stjóri (IP-tala skráð) 25.11.2011 kl. 02:08
Síðuhaldari mun snyrta bæði hár sitt og skegg áður en knúsið fer fram ... það er alveg klárt! :)
Páll Jakob Líndal, 26.11.2011 kl. 17:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.