Miðvikudagur 16. nóvember 2011 - Fréttastund af GHPL og PJPL

Guddan stóð sig frábærlega í leikfimitímanum í dag. Hljóp eins og fálki í stórfiskaleiknum og fór mikinn í stöðvaþjálfuninni.
Þess á milli var hún í að stríða hinum með því að taka einhver bönd sem voru á gólfinu, sem meiningin var að hoppa yfir, og draga þau út á mitt gólf. Við það fór allt "systemið" í kerfi ... og GHPL hló að öllu saman.

Hún var hinsvegar ekki jafnhress þegar við vöktum hana í morgun. "Rugl, rugl, rugl" sagði hún aftur og aftur á meðan hún barðist við að opna augun. "Æææaaaaahhhhh" endurtók hún svo í sífellu þar sem hún sat við eldhúsborðið með hönd undir kinn. 
Já þetta var erfiður morgun fyrir fröken Guðrúnu.

Annars er hún mikið í hlutverkaleik ... hér á heimilinu hafa allir sitt hlutverk og verið löngum stundum er að berjast við dreka. Þess á milli leikur móðir hennar við hana í Strumpaleik, þar sem hún og þrjár Strympur eiga við móðurina, Kjartan galdrakarl og köttinn Brand.

Og svo er það kisukjóllinn. Það fyrsta sem gert er þegar komið er heim af leikskólanum er að rífa sig úr öllum fötunum og fara í kisukjólinn ... en kisukjóllinn er bleikur náttkjóll með glöðum ketti á framhliðinni. 

---

Af bróðurnum er það að frétta að hann er afar hress og á sífelldu iði þegar hann er vakandi. Annars vekur það mesta furðu hversu tíð bleyjuskipti þarf að hafa á blessuðu barninu. En kannski er það ekki svo skrýtið þegar litið er til þess magns sem etið er ... þetta er bara einhvern veginn alveg glæný reynsla fyrir okkur Laugu, enda hemasætan hér afar létt á fóðrum og hefur alltaf verið, eins og frægt er orðið.

Þar er annað sem skilur blessuð börnin að en það ólík afstaða þeirra til þess að láta klæða sig. Þegar GHPL var á svipuðum aldri og PJPL er nú, var leikur einn að klæða hana. Fötin gjörsamlega runnu bara á hana. Jafnvel var haft á orði að hún gæti næstum klætt sig sjálf.
En nafni er algjörlega á öndverðum meiði ... og verður afar óhress þegar verið er að færa hann í föt og slæst um á hæl og hnakka og öskrar helst samtímis.

Ég hef reynt að koma honum í skilning um það, án árangurs ennþá í það minnsta, að hann sé hvorki að gera sitt líf né mitt eða móður sinnar auðveldara með þessum fjárans djöfulgangi. Ég vona að það skiljist einhvern tímann. 

Hans helsta dægradvöl að er eiga við svona tæki sem er með mörgum tökkum og spilar alls konar lög þegar stutt er á takkana. Á þessu tæki djöflast hann, lafmóður af ákafa, þangað til ég er orðinn lafmóður af leiðindum að hlusta á þetta spilerí.
Áður en ég gríp þó inn í, er hann iðulega búinn að koma sér í vandræði og óhætt að segja að kostulegt geti verið að fylgjast með honum reyna að koma sér úr vandræðunum með tilheyrandi stunum og barningi, á sama tíma og glaður leikur "spiladósarinnar" hljómar enda pat piltsins svo mikið og tilviljanakennt að hann kemst ekki hjá því að styðja endrum og eins og takka "dósarinnar", sem þá tekur til óspilltra málanna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband