Föstudagur 28. október 2011 - Þversögn og uppgötvun

Í dag var ég ekki jafn djúpt þenkandi og í gær. Sem er nú kannski bara ágætt. 

Ég fer nú samt ekki ofan af því að mannleg samskipti eru flókið og ruglingslegt fyrirbæri. Það er samt alveg merkilegt hvað maður fær litlar leiðbeiningar um hvernig maður á bera sig að í slíkum samskiptum. Þetta er svolítið eins og uppeldið. Maður er með stórbrotið verkefni í höndunum sem maður hefur eiginlega ekki hugmynd um hvernig á að framkvæma.

Í vikunni hef ég spáð töluvert í uppeldismál. Ekki í fyrsta skiptið og vonandi ekki í það síðasta. Ég uppgötvaði það á miðvikudaginn að ég var kominn í mótsögn við sjálfan mig eða hvað ... ?

Ég hef verið fylgjandi þeirri hugmynd að börn eigi ekkert endilega alltaf að hlýða því sem þeim er sagt að gera og það eigi að leyfa börnum að hafa svigrúm til að átta sig á hlutunum á eigin forsendum. Finna sínar eigin leiðir.  Sálfræðirannsóknir hafa sýnt að tækifæri til að takast á við hlutina er mikilvæg forsenda sjálfvirðingar og hamingju ... ekki bara hjá börnum heldur fullorðnum líka.
Jæja ... það er sumsé mikilvægt að hafa eigin skoðanir og elta ekki bara fjöldann hugsanalaust. 

Þá finnst mér það liggja í augum uppi að það hlýtur að verða að gefa börnum svigrúm til að vera sjálfstæð og hafa sínar eigin skoðanir og nálganir.
Samt er í raun tilhneigingin sú að gefa slíkt svigrúm einungis þegar manni sjálfum hentar. Sem er eiginlega aldrei. 

Ég veit ekki hvað ég þarf að bíta oft í tunguna á mér og hnýta hendurnar aftan við bak á hverjum degi til að Guddan fái það svigrúm sem hún á e.t.v. að fá til að geta áttað sig á hlutunum.

Ég er náttúrulega ekki að tala um að leyfa henni að veifa kjötskurðarhnífnum í kringum sig eða leika sér með eldspýtur.
Í kvöld fann GHPL t.d. hjá sér sterka hvöt til að fara fram á baðherbergi og rennbleyta ermarnar á peysunni sem hún var í.  Þegar ég sá þetta voru fyrstu viðbrögð þau að vilja skamma hana en ég rétt náði að hemja mig.

Hvaða máli skiptir þetta í raun? Hvaða máli skiptir það þó hún rennbleyti ermarnar á peysunni sinni? Málið var nú ekki flóknara en svo að hún fór úr peysunni, setti hana á ofn og fór í aðra peysu.

En þetta var ekki það sem ég ætlaði að segja ...

... ég ætlaði að segja frá því að á miðvikudaginn, í leikfimitímanum gerði GHPL ekki það sem kennararnir voru að leggja upp með. Hún var þess í stað í sínum eigin heimi og gerði bara það sem hana sjálfa langaði.

Ég sat álengdar og lét þetta fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Á endanum sagði ég við hana að ég myndi "verða reiður" ef hún gerði ekki eins og kennararnir segðu. Það gerði bara illt verra ... 

... enda ef maður spáir í það ... hversu vel tekur maður sjálfur í það ef maður nennir ekki að gera eitthvað eða langar til að gera eitthvað annað, að einhver aðili komi upp að manni og segi að maður fái að kenna á því að maður drullist ekki til að gera það sem fyrir er lagt?
Sérstaklega þegar maður hefur aldrei verið spurður yfir höfuð hvort mann langi til að gera það sem fyrir mann er lagt ...

Lauga ákveður upp á sitt einsdæmi að fara með mig á dansnámskeið. Á námskeiðinu, langar mig meira til að sitja frammi og horfa á fótbolta í sjónvarpinu, heldur en að dansa. Lauga verður pirruð á þessari þvermóðsku, kemur til mín og segir að ég skuli svo sannarlega fá að kenna á því ef ég komi mér ekki út á gólfið að dansa. 

Maður yrði sennilega mun hressari og meira til í að taka þátt eftir slíkan gjörning eða ... ? 

... af hverju eiga þessa hótanir endilega að virka vel á börn? 

Það var á miðvikudaginn sem ég áttaði mig betur en áður hvað þetta er ótrúlega vandrataður stígur að feta. Á meðan ég vil gefa GHPL frjálsræði til að átta sig á tilverunni á eigin forsendum þá vil ég ekki að frjálsræðið verði þannig að það sé engu hlýtt. 

Já ... þetta er svo sannarlega verðugt viðfangsefni ... 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta líf er ekkert grín..... en gaman að lesa hugleiðingar þínar.

Bið að heilsa Laugu minni.

Linda (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 23:57

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Athyglisverðar pælingar. Ég er sammála þér upp að vissu marki. Þó finnst mér að börn eigi að hlýða foreldrum sínum. Við verðum hins vegar að gæta þess að vera ekki endalaust að setja reglur, bara til að setja reglur. Sbr blautu peysuermarnar; alveg rétt, hvaða máli eiginlega skipta blautar peysuermar! En svo er önnur hlið á þessu máli; við viljum ekki að börnin okkar hlýði hverju orði ókunnugra. Sjálf á ég t.d. einhverfan dreng sem fer víða án okkar, þ.e. dagvistun, skammtímavistun, stuðningsfjölsk., sumarbúðir...  þú veist sennilega hvað ég er að fara. Í stuttu máli, verðum við ekki að reyna að kenna börnunum okkar að vega og meta aðstæður eins og mögulegt er.

Jóna Á. Gísladóttir, 30.10.2011 kl. 11:51

3 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Takk fyrir þessar skemmtilegu athugasemdir.

Jóna: Ég fæ ekki betur séð að við séum nokkurn veginn á sömu blaðsíðunni með þetta. Mér finnst að börn eigi að hlýða foreldrum sínum í öllum veigamestu atriðum.

Mér finnst aftur á móti foreldrar svolítið gjarnir á að vera alltaf að láta á það reyna hvort börnin hlýði með endalausum reglusetningum.

Páll Jakob Líndal, 31.10.2011 kl. 00:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband