Fimmtudagur 27. október 2011 - Um vináttu og félagsleg samskipti

Á milli þess sem ég hef verið að vinna í dag, hafa sótt á mig hugsanir um vini, vináttu og félagsleg samskipti.

Þessi þrenna er merkilegt fyrirbæri, sem ég hef aldrei almennilega skilið. 

Félagsleg samskipti eru flóknasta fyrirbæri sem til er að mínu mati, bæði torskilin en einnig ákaflega ruglingsleg.
Sumir virðast eiga afskaplega auðvelt með þau en aðrir ekki. Ég tilheyri síðari hópnum, finnst mér. Á minni lífsleið hef ég sárasjaldan átt frumkvæði að samskiptum við fólk. Ég vík mér sjaldan að fólki sem ég þekki lítið og byrja að ræða við það. Ég bara einfaldlega tek ekki sjénsinn. Hvaða sjéns mætti það spyrja? Mitt svar er "ég veit það ekki". 
Þar að auki er ég mjög lélegur í að viðhalda samskiptum við fólk. Ég hringi helst ekki í fólk að fyrra bragði. Ég hvet sjaldan til hittings. Ég kommentera aldrei á Facebook. Bara svona til að nefna eitthvað. Ég tek ekki sjénsinn. Hvaða sjéns? Mitt svar er "ég veit það ekki". 

Ég veit ekki af hverju ég hef kosið að feta þessa leið.

Í gegnum tíðina hef ég fengið að heyra að ég virki mjög öruggur með mig, jafnvel yfirlætisfullur. Ég horfi á fólk með einhverju augnaráði sem segir þeim að mér finnist nú ekki mikið þess koma. Fyrirlitningarsvipur einhver.

Svona eru hlutirnir skrýtnir og öfugsnúnir.

Þó svo ég viti ekki almennilega af hverju þetta er svona, þá er alveg klárt mál að ég hef mikið hugsað þetta mál. 

Einhvern veginn finnst mér þó að þetta sé sambland af feimni og einhvers konar vantrausti á fólki. Allt frá því ég man eftir mér hef ég verið feiminn. Svakalega feiminn. Ég hef þurft að taka mér minn tíma til að kynnast fólki. En þegar fólk hefur öðlast traust mitt þá eru fáir hlutir sem ég neita að ræða við það.

Ég lít á vináttu þeim augum að við vini sína á maður að geta sagt það sem manni býr í brjósti og verið maður sjálfur án þess að einhverjar óeðlilegar hömlur séu í gangi. Vináttu fylgir líka þagnarskylda, þ.e. maður þarf að geta þagað yfir því sem manni er sagt ef svo ber undir, og vináttu fylgir virðing og væntumþykja undir öllum kringumstæðum.  

Ég ber mikla virðingu fyrir vináttu og met hana mjög mikils. Að sama skapi geri ég gífurlegar kröfur til minna vina. Kröfurnar eru þær að þeir líti vináttu sömu augum og ég. Kannski til mikils ætlast. Sennilega til of mikils ætlast.

Kannski er það þetta mikla traust sem ég legg á hendur vina minna sem er minn mesti Akkilesarhæll því þeir eru nokkrir í gegnum tíðina sem hafa ekki staðist þessar væntingar mínar ... þeir hafa brennt mig ... sem gæti skýrt skortinn á frumkvæðinu og viðhaldsleysið ... 

... en núna sýnist mér að þessi frásögn mín sé bara komin í hring ...  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband