Þriðjudagur 13. september 2011 - Að spila veiðimann og velta sér

Guddan er búin að eignast sinn fyrsta alvöru vin ... svona samloku-vin ... vin sem hægt er að hanga með allan daginn út og inn.

Sá heitir Noa og með GHPL á leikskólanum. Alveg hreint dásamlegt!  Persónulega myndi ég ekki geta unnið mér það til lífs að þekkja Noa úr hópi barna ... en það skiptir ekki öllu máli ... ef Guddan gerir það þá er það í sjálfu sér alveg nóg.

---

Í gær spiluðum við Lauga og Guddan veiðimann.  Sú stutta spilaði með báðum liðum, fyrst með móður sinni gegn mér en svo sameinuðumst við feðginin.

GHPL tók mjög virkan þátt í spilamennskunni og fagnaði nánast hverju spili sem dregið var úr bunkanum.

"Þetta er fristur!!" hrópaði hún af einskærri gleði þegar ég dró þrist.  "Þetta er femma" sagði hún svo þegar fimma birtist.

Þessi köll voru að sjálfsögðu nokkuð bagaleg fyrir spilamennskuna ... en það var Guddunni alveg sama um. "Níu" sagði hún þegar hún benti á sexuna sem ég var með á hendi.

Ég spurði hana hvaða spil við ættum að spyrja mömmu hennar um.
"Áttu A?" spurði GHPL þá og átti að sjálfsögðu við ás en eins og flestir vita stendur A á ásunum.

Svo kom aðalspurning spilsins: "Áttu prinsessu?"
"Það er engin prinsessa í spilastokknum ... bara drottning ... og svo kóngur og gosi"
"Nei ... prinsessa" sagði hún ákveðin.

Til að gera langa sögu stutta fékkst enginn botn í þetta, sama hversu mikið málið var útskýrt.  GHPL vildi fá prinsessu og engar refjar.

Þess má svo geta að spilinu lauk með sigri okkar feðginanna ;) .

---

Svo verð ég auðvitað að nefna minn ástkæra son ... Palla Pípus ... sem er svo sérstaklega glaður og hress.

Hann er mikið að bardúsa í því að liggja á maganum og er farinn að velta sér töluvert fram og aftur.  Veltingurinn reynist þó stundum þrautin þyngri, sérstaklega þegar velt er yfir á magann og önnur höndin lendir undir belgnum og situr þar föst.

Þá pípir hressilega í Pípusi.

--- 

 Dagleg störf hafa verið hefðbundin þessa tvo virku daga vikunnar sem liðnir eru.

Ég ákvað hinsvegar að þiggja boð um hljómsveitaræfingu í Stokkhólmi í kvöld.  Söng þar Rolling Stones, Guns and Roses og ACDC.

Það verður að segja með þessa ACDC slagara að þeir eru alveg djöfulli erfiðir viðfangs ... laglínan liggur svo hrikalega hátt að það er nánast ógjörningur að syngja þessi lög nema rústa hreinlega í sér röddinni.
Stones-lagið steinlág og Guns and Roses var ok.

Ég ætla að sjá aðeins hvað setur með þessa hljómsveit ... kíki á aðra æfingu í næstu viku ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband