9.2.2007 | 10:50
Að lifa eins og morgundagurinn sé enginn!
Ég var að lesa í Blaðinu áðan viðtal við grínarann Gunnar Sigurðsson, sem nú er framkvæmdarstjóri V-dagssamtakanna. Viðtalið er hið ágætasta og meðal annars setur Gunnar fram lífsspeki sína sem er eftirfarandi: "Ég reyni allta að sjá spaugilegar hliðar á hlutunum og annars held ég að maður væri einhvers staðar á vondum stað." Vissulega eftirtektarverð speki, sem myndi gera heiminn betri, ef allir hefðu að leiðarljósi.
En þetta var ekki það eina sem hnaut af vörum Gunnars sem vakti sérlega athygli mína. Undir liðnum "ráð og speki" leggur Gunnar fram þessa línu: "Lifa eins og enginn sé morgundagurinn."
Ég geri ráð fyrir því að hér sé Gunnar að brýna fyrir fólki að njóta augnabliksins án þess að hafa svo miklar áhyggjur af framtíðinni. Í sjálfu sér mjög góð speki. Hinsvegar gengur þessi kunni frasi ekki alveg upp því hvernig væri heimurinn ef allir hugsuðu með þessum hætti - ef fréttatilkynning kæmi frá máttarvöldunum um að endalok heimsins yrðu á morgun ... hvað myndi gerast? Myndu ekki allir reyna að gera allt sem þeim dettur í hug af því að morgundagurinn er enginn. Hætt er við að víða yrðu "innistæðulaus viðskipti".
Í pistli mínum um sjálfbæra líkamsrækt, sem er að finna hér neðar á síðunni er kynnt sú hugmynd að stunda líkamsrækt, einmitt með það í huga að á morgun mun, ef guð lofar, sólin rísa í austri. Með öðrum orðum að hafa í huga að ganga ekki svo nærri sér að ekki sé til innistæða fyrir morgundeginum.
Tillaga mín er því að njóta líðandi stundar, vitandi að það er von á morgundeginum á morgun.
Váaáá ... þetta var djúpt ... !!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.