4.9.2011 | 20:55
Sunnudagur 4. september 2011 - Sirkus, listasafn og 3-1
Guddan er "fíllinn"! Eða svo segir hún sjálf ...
Þessi dægrin er hún sum sé í hlutverkaleik og nær hann yfirleitt hámarki í rúminu okkar en þar lætur "fíllinn" sig falla ótt og títt með miklum tilþrifum ... "fíllinn er að detta", öskur og svo dúar allt herbergið og hristist.
"Fíllinn" fær sér líka að "grekka" (drekka), hann fer að pissa og þarf að klæða sig ... og meira segja var "fíllinn" svo óheppinn í morgun að hann meiddi sig á fætinum.
Þessi fílasótt hefur verið í mjög örum vexti frá því að við fórum í Cirkus Maximum í gær.
Poppílát úr sirkusnum
Þegar GHPL er spurð hvað hafi verið skemmtilegast í sirkusnum, segir hún umsvifalaust að fílarnir hafi verið skemmtilegastir ...
... sem er alveg stórfurðulegt því það voru engir fílar á sýningunni, að ég best veit.
En Guddan nennir ekkert að hlusta á svoleiðis úrtölur ...
Þessir hundar, já og póný-hesturinn, voru hinsvegar á sýningunni
---
Í dag skruppum við svo á listasafn Uppsala ... heldur betur fjör að vera þriggja ára þar! Sérstaklega innan um keramikið ... einn safnvörðurinn fékk hér um bil slag þegar GHPL var langt komin í þeirri vinnu að taka upp stóran og mikinn frosk sem var með kórónu á höfðinu.
"Ómetanleg verðmæti" sagði þessi ágæti vörður þegar hann hafði jafnað sig eftir mesta sjokkið. ""Grúdan" (froskur á sænsku) með kórónu" sagði Guddan á móti og andlit hennar ljómaði eins og sól í heiði.
Þessi ágæti safnvörður leit ekki sekúndu af okkur eftir þetta atvik og tók ávallt spígsporandi á móti okkur þegar við stigum út úr lyftunni sem flytur gesti milli hæða á safninu. Hlýtur að hafa hlaupið eins og eldibrandur upp stigana ...
Fyrir utan listasafnið sá GHPL þessa "fossa"
---
Leikur í kvöld í Rosernberg ... hann tapaðist 3-1 ... hlutdrægasti dómari sögunnar blés í flautuna.
Síðuhaldari lét það fara í taugarnar á sér og það endaði með því að fá gult spjald eftir að hafa neglt einhvern snillinginn niður af fullkomnum ásetningi ... ójá, þetta skap ... eftir spjaldið var karl rólegri en þar með er ekki sagt að hann hafi verið rólegur.
Athugasemdir
Það var nú ekki nema fimm metra tækling og boltinn aldrei í sjónmáli!
Guðmundur Sverrir Þór, 4.9.2011 kl. 21:37
Hvaða, hvaða?? :D
Páll Jakob Líndal, 5.9.2011 kl. 10:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.