8.2.2007 | 00:33
Hvað er þetta "murenan"?
Árið er 1999, heimurinn skelfur vegna yfirvofandi 2000-vanda en starfsmenn Tilraunastöðvarinnar á Keldum reyna að láta ógnina ekki ná tökum á sér. Ég, sem þá telst til starfsmanna Tilraunastöðvarinnar, sit fyrir framan Macintosh-tölvuna í tölvu- og lesherberginu í Húsi 3. Mitt verkefni þá stundina var að gerast fullgildur meðlimur þess hóps fólks sem notar vefsíðuna hotmail.com til að eiga samskipti við annað fólk. Í PC-tölvunni skammt frá mér situr Doddi snöggi og leggur kapal, ekki svo að skilja að Doddi hafi stundað þá iðju mikið - þvert á móti. Við hlið hans situr enn einn starfsmaður Tilraunastöðvarinnar, gengur undir gælunafninu Benný. Hún spáir í hvaða möguleikar eru fyrir hendi í kaplium hjá Dodda.
Ég ríf rafmagnaða þögnina ...
"Nú er ég að stofna svona hotmail eða hvað þetta nú heitir ... hvaða notendanafn á ég eiginlega að nota?" Aftur þagnar allt. "Múrenan" segir Benný í tón þess sem bæði valdið og vitið hefur. Ég gríp það á lofti. Múrenan. Það er gott nafn - murenan@hotmail.com. Þetta lúkkar líka bara nokkuð vel.
Með tímanum fer nýtt vandamál að knýja dyra. Spurt er: "Ertu með netfang?" "Já, já murenan@hotmail.com" "Ha?!? Hvað segirðu, mu- ... hvað?" "murenan@hotmail.com" "Murenan?!?" "Já, m-u-r-e-n-a-n- at hotmail-. - com." Þá kemur spurningin: "Hvað er þetta murenan?" "Það er í rauninni Múrenan ... það er sko ránfiskur! Annars er þetta tekið úr Sval og Val ... Múrenan er dulnefni á bófa sem heitir Jón Harkan." "Já, já svoleiðis ... " Málið dautt ... viðkomandi hefur aldrei lesið Sval og Val!
Þetta er nú sagan á bak við murenan@hotmail.com. Núna hefur murenan@gmail.com bæst í hópinn og murenan.blog.is, þannig að Múrenan er hvergi hætt!!
Að lokum get ég ekki stillt mig um að taka klausu upp úr 17. hefti Svals og Vals "Svamlað í söltum sjó" eftir snillinginn Franquin í þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar, þar sem Jón Harkan "Múrenan" kynnir sig fyrir Sval (kynningin á sér stað á 200 metra dýpi í flakinu af Sædrottingunni):
"Veistu hvað Múrena er? Það er stór fiskur með hvassar tennur ... hún heldur sig í klettasprungum og ræðst sjaldan á kafara ... en komi einhver hálfviti sem rekur lúkuna inn til Múrenunnar ... þá ræðst hún á hann ... og drepur hann jafnvel. Ég er Múrenan ... og þú varst svo vitlaus að raska ró Múrenunnar ... " (bls 49 - 50). Svo mörg voru þau orð ...
Ég ætla aðeins að sjá til hvort ég geri þessi orð Jóns Harkans að mínum!
Athugasemdir
Þannig að Benný ber ábyrgðina! En hvernig í ósköpunum datt henni þetta í hug?? Hvort var hún að hugsa um ránfiskinn eða Jón Harkan í vinnunni á Keldum?
Svalur og Valur, Tinni, Lukku Láki.....allt heimsklassa bókmenntir.
Kv. Dóri
Dóri (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 09:58
Já ég skal varpa ljósi á þetta mál :) Man nú kannski ekki hvernig þetta byrjaði en á þessum tíma átti ég svakalega flottan Dihatsu Sirion með númerinu ZG-908 og fékk bíllinn þá að sjálfsögðu nafnið Zorglúbb (augljóst ekki satt), sem allir vita að er vondi karlinn í Sval og Val (Bobbi getur kannski komið með góða klausu um það fljótlega). Hvort það kom á undan eða eftir man ég ekki alveg en sumir fóru að nota orðið múrenan sem gælunafn á sjálfan sig.... Sem ég sit svo og er að skipta mér af kaplinum þarna um árið (var nú örugglega að spekúlera í einhverju gáfulegra en allavega....Þessari hotmail spurningu er kastað fram og liggur þá ekki svarið í augum uppi?? ég bara spyr.....og svara Jú!! Kveðja, Z (Z fyrir Zorglúbb)
Benný (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 13:38
Takk kærlega fyrir þetta Benný. Nú get ég loksins hætt að velta þessu fyrir mér (Benný...múrenan...ránfiskur...Jón Harkan...kapall...Keldur...hugsa...Bobbi...hotmail...ha??) en það kemur ekki á óvart að sjálfur Zorglúbb hafði áhrif, sá ótrúlegi snillingur!
Dóri (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 16:14
já ég veit þetta er augljóst!! En það er náttúrulega alveg nauðsynlegt fyrir alla að hafa gælunafn úr Sval og Val, ekki spurning, Dóri ég mana þig til að fletta í gegnum bækurnar finna þér nafn!!
Benný (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 00:17
Auðvitað, þetta flokkast undir vítavert kæruleysi! Ég vel það sem kemur fyrst upp í hugann og lýsir mér best: Sveppagr...... nei annars....Gormur!
Dóri (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 18:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.