Hvað er þetta "murenan"?

Árið er 1999, heimurinn skelfur vegna yfirvofandi 2000-vanda en starfsmenn Tilraunastöðvarinnar á Keldum reyna að láta ógnina ekki ná tökum á sér.  Ég, sem þá telst til starfsmanna Tilraunastöðvarinnar, sit fyrir framan Macintosh-tölvuna í tölvu- og lesherberginu í Húsi 3.  Mitt verkefni þá stundina var að gerast fullgildur meðlimur þess hóps fólks sem notar vefsíðuna hotmail.com til að eiga samskipti við annað fólk.  Í PC-tölvunni skammt frá mér situr Doddi snöggi og leggur kapal, ekki svo að skilja að Doddi hafi stundað þá iðju mikið - þvert á móti.  Við hlið hans situr enn einn starfsmaður Tilraunastöðvarinnar, gengur undir gælunafninu Benný.  Hún spáir í hvaða möguleikar eru fyrir hendi í kaplium hjá Dodda. 

Ég ríf rafmagnaða þögnina ... 

"Nú er ég að stofna svona hotmail eða hvað þetta nú heitir ... hvaða notendanafn á ég eiginlega að nota?"  Aftur þagnar allt.  "Múrenan" segir Benný í tón þess sem bæði valdið og vitið hefur.  Ég gríp það á lofti.  Múrenan.  Það er gott nafn - murenan@hotmail.com.  Þetta lúkkar líka bara nokkuð vel. 

Með tímanum fer nýtt vandamál að knýja dyra.  Spurt er: "Ertu með netfang?" "Já, já murenan@hotmail.com" "Ha?!?  Hvað segirðu, mu- ... hvað?" "murenan@hotmail.com" "Murenan?!?" "Já, m-u-r-e-n-a-n- at hotmail-. - com."  Þá kemur spurningin:  "Hvað er þetta murenan?" "Það er í rauninni Múrenan ... það er sko ránfiskur!  Annars er þetta tekið úr Sval og Val ... Múrenan er dulnefni á bófa sem heitir Jón Harkan."  "Já, já svoleiðis ... "  Málið dautt ... viðkomandi hefur aldrei lesið Sval og Val!

Þetta er nú sagan á bak við murenan@hotmail.com.  Núna hefur murenan@gmail.com bæst í hópinn og murenan.blog.is, þannig að Múrenan er hvergi hætt!!

Að lokum get ég ekki stillt mig um að taka klausu upp úr 17. hefti Svals og Vals "Svamlað í söltum sjó" eftir snillinginn Franquin í þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar, þar sem Jón Harkan "Múrenan" kynnir sig fyrir Sval (kynningin á sér stað á 200 metra dýpi í flakinu af Sædrottingunni):

"Veistu hvað Múrena er? Það er stór fiskur með hvassar tennur ... hún heldur sig í klettasprungum og ræðst sjaldan á kafara ... en komi einhver hálfviti sem rekur lúkuna inn til Múrenunnar ... þá ræðst hún á hann ... og drepur hann jafnvel.  Ég er Múrenan ... og þú varst svo vitlaus að raska ró Múrenunnar ... " (bls 49 - 50).  Svo mörg voru þau orð ...

Ég ætla aðeins að sjá til hvort ég geri þessi orð Jóns Harkans að mínum! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þannig að Benný ber ábyrgðina! En hvernig í ósköpunum datt henni þetta í hug?? Hvort var hún að hugsa um ránfiskinn eða Jón Harkan í vinnunni á Keldum?

Svalur og Valur, Tinni, Lukku Láki.....allt heimsklassa bókmenntir.

 Kv. Dóri 

Dóri (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 09:58

2 identicon

Já ég skal varpa ljósi á þetta mál :) Man nú kannski ekki hvernig þetta byrjaði en á þessum tíma átti ég svakalega flottan Dihatsu Sirion með númerinu ZG-908 og fékk bíllinn þá að sjálfsögðu nafnið Zorglúbb (augljóst ekki satt), sem allir vita að er vondi karlinn í Sval og Val (Bobbi getur kannski komið með góða klausu um það fljótlega). Hvort það kom á undan eða eftir man ég ekki alveg en sumir fóru að nota orðið múrenan sem gælunafn á sjálfan sig....  Sem ég sit svo og er að skipta mér af kaplinum þarna um árið (var nú örugglega að spekúlera í einhverju gáfulegra en allavega....Þessari hotmail spurningu er kastað fram og liggur þá ekki svarið í augum uppi??  ég bara spyr.....og svara Jú!!  Kveðja, Z (Z fyrir Zorglúbb)

Benný (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 13:38

3 identicon

Takk kærlega fyrir þetta Benný. Nú get ég loksins hætt að velta þessu fyrir mér (Benný...múrenan...ránfiskur...Jón Harkan...kapall...Keldur...hugsa...Bobbi...hotmail...ha??) en það kemur ekki á óvart að sjálfur Zorglúbb hafði áhrif, sá ótrúlegi snillingur!

Dóri (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 16:14

4 identicon

já ég veit þetta er augljóst!!  En það er náttúrulega alveg nauðsynlegt fyrir alla að hafa gælunafn úr Sval og Val, ekki spurning, Dóri ég mana þig til að fletta í gegnum bækurnar finna þér nafn!!

Benný (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 00:17

5 identicon

Auðvitað, þetta flokkast undir vítavert kæruleysi! Ég vel það sem kemur fyrst upp í hugann og lýsir mér best: Sveppagr...... nei annars....Gormur!

Dóri (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband