6.2.2007 | 16:03
Pétur og álið
Í 4. tölublaði www.framtidarlandid.is skrifar Pétur Gunnarsson rithöfundur eftirfarandi: Borgarastyrjöldin gegn landinu |
Það mun hafa verið Halldór Laxness sem kom með hugtakið um hernaðinn gegn landinu og gerði landsfleygt í grein sem birtist árið 1970 undir sama heiti. Þá stóð stríðið um Kísilgúrverksmiðjuna í Mývatni hæst. Síðan eru liðin þessi ár sem eru liðin og verksmiðjan sú hefur nú lagt upp laupana, líftími hennar var ekki lengri en þrjátíu ár. Mannsaldur. En þau spjöll sem hún vann á lífríki vatnsins, m.a. eyðileggingu bleikjustofnsins sem hafði verið búhnykkur fólksins og lífsviðurværi við vatnið undangengin þúsund ár - fræðingar telja að það muni taka a.m.k. tvö hundruð ár að endurheimta hann. Þegar aftur á móti er litið til þeirra áforma sem nú eru ýmist vel á veg komin, á teikniborðinu eða kröfur eru settar fram um, kemur manni í hug: borgarastyrjöldin gegn landinu. En borgarastríð eru einhver grimmilegustu og haturfyllstu átök sem ein þjóð getur ratað í, einskonar sjálfsofnæmi sem kvistar þjóðirnar niður innan frá, þótt öflin sem næra þau séu oftar en ekki utanfrá. Þannig er nú skipað saman í sveit erlendum auðhringum og íbúum dreifbýlisins, fólki sem hefur afskipt horft upp á óðaþenslu höfuðborgarsvæðisins og jafnvel orðið fyrir þungum búsifjum vegna stjórnvaldsaðgerða í fiskveiðimálum. Fólki sem finnst það hafa harma að hefna. Álverksmiðjan er þeirra síðbúna hefnd á kaffihúsaliðinu. Þar með opnast kærkomin leið fyrir samsteypur og auðhringa sem nú gína yfir fallvötnum og jarðhita landsins, orkunni sem býr í vatnsföllum og iðrum jarðar og hyggjast hagnýta til bræðslu á áli. Ef þessar fyrirætlanir ná fram að ganga og draumur sveitastjórna víða um land um stóriðju í sín heimapláss rætist, mun ásýnd Íslands aldrei verða söm. Hættan er því ískyggilegri að ástand í heiminum er nú á þann veg, með rísandi efnahagssól Kínverja og Indverja, að eftirspurn eftir áli verður gríðarleg næstu áratugi. Og þeir sem eiga sér þá ótrúlegu draumsýn að Ísland verði vettvangur bróðurpartsins af þeirri álbræðslu eiga góða möguleika að sjá þá sýn verða að veruleika. Það er því brýnt að vakna ekki seinna en nú upp við vondan draum áður en hann breytist í martröð. |
Athugasemdir
Var Halldór Laxness ekki að skrifa um skurðgröft og þurrkun votlendis? En á þessum árum voru gjarnan grafnir skurðir þar sem ekki var fært að ganga á gúmmískóm.
Af hverju þarf umræða um álver að vera annað hvort í ökla eða eyra? Álver eru fyrsta flokks kjölfestufyrirtæki. Og það sem meira er að þau verða ekki vistvænni annars staðar.
Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson
Starfsmaður Alcan
Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 16:44
Nóbelskáldið kemur víða við í þessari frábæru grein en hann talar m.a. um sauðfjárbeit, ræstingu votlendis og Mývatn.
Ég er sammála Tryggva í sambandi við ökklann og eyrað, umræðan er oft öfgafull í báðar áttir, en hann má sjálfur passa sig aðeins. Ég er ekki viss um að allir samþykki fullyrðinguna að álverin verði ekki vistvænni (minna skaðleg!)annarsstaðar. Það þarf jú að horfa á heildarpakkann í hvert skipti. Einhverjar ástæður hljóta t.d. að hafa verið fyrir því að Skipulagsstofnun úrskurðaði á sínum tíma gegn Kárahnjúkavirkjun, forsendunni fyrir Reyðaráli!
Ég er heldur ekki viss um að allir vatnsaflsvirkjanakostir í útlöndum séu síðri en hér á landi, en þeir eru víst glettilega margir.
Hernaðurinn gegn landinu (ætti að vera skyldulesning í grunnskólum )
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=683329
Dóri (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.