20.5.2011 | 22:57
Föstudagur 20. maí 2011 - Snuð og meiri Guð-ni
Því er ekki að neita að dagarnir eru nokkuð keimlíkir en ganga vel.
Börnin eru alveg eins og ljós ... og ekki versnaði það við það að Tani H fékk snuð ...
---
Reyndar verður að segja eins og satt er að Tani H hefur svona við og við verið að gera út af við móður sína ... sífellt kvartandi blessaður ...
Það var því ákveðið að tékka hvort snuðið gæti ekki virkað ... og ó jú ... Tani H er afar mikill "snuddukarl" ...
Það var nú systir hans líka ... aðeins þó í nokkra daga ... eða allt þar til Lauga spurði hana hvort hún ætlaði að verða "snuddukerling". Þá snarhætti snuðið að virka og hefur ekki farið upp í hana síðan, ef frá eru talin örfá undantekningartilfelli.
Hvort Tani H sé alvöru "snuddukarl" með stóru S-i verður bara að koma í ljós ...
---
Ég er enn mikið að spá í Guðna og bókinni hans ... sem mér finnst alltaf verða betri og betri ...
Það sem mér finnst merkilegast núna eru "markmið" og "tilgangur".
Það er mikið rætt um markmið og mikilvægi þess að setja sér markmið til að finna lífshamingjuna. Markmið sem eru skýr, framkvæmanleg og tímasett er töfraformúlan.
Dæmi: Ég ætla að vega 85 kg þann 1. desember 2011.
Eitthvað þessu líkt hef ég reynt nokkrum sinnum og sannast sagna hefur gengið hörmulega. Það sem gerist í þessu er að 1. desember 2011 verður að 1. mars 2012 sem verður að 1. september 2012 og loks að 1. desember 2012 o.s.frv.
Það á sér stað einhvers konar frestun, maður hefur sig ekki í þetta eða maður endist ekki eftir góða byrjun ... þetta þekkja allir ...
Þá er sagt við mann: "Þetta má ekki vera skorpa ... þetta þarf að vera lífsstílsbreyting. Breyttu einu atriði í einu og láttu líða að minnsta kosti 3 - 4 vikur á milli." Þetta gengur í 4 vikur ... svo bætir maður við atriði nr. 2 ... það gengur í 2 vikur ... svo er allt búið ...
Af hverju? Af hverju hefur maður ekki þennan aga sem þarf til að koma sér t.d. í ásættanlegt líkamlegt form ... nú eða hætta að drekka kók?!
Svarið er einfalt ... það er tilgangurinn ...
Ójá ... það er tilgangurinn með markmiðinu sem ræður því hvort maður stendur við stóru orðin eða ekki.
Ég fattaði þetta þegar ég kom aftur til Svíþjóðar eftir síðustu Íslandsferð mína ... þann 13. apríl sl.
Áður en ég fór til Íslands var ég búinn að koma mér sæmilegt form vegna þess að ég var búinn að hreyfa mig reglubundið í 4 vikur þar á undan.
Þegar ég kom út 10 dögum síðar var ég flak ... ég gat varla hreyft mig. Ég var að drepast úr stirðleika og var kominn með slæma hásinarbólgu.
Bara á 10 dögum ... hugsaðu þér!!
Ástæðan?!? Ég hafði ekki hreyft mig rass*** meðan ég var á Íslandi og drukkið ótæpilega af kóki ...
Þegar ég byrjaði svo að hreyfa mig aftur ... þ.e. að mæta í ræktina fann ég hvernig stirðleikinn fór að víkja, sem og hásinarbólgan.
Þann 26. apríl drakk ég síðast Coca Cola.
Hlutirnir létu ekki á sér standa ... skrokkurinn á mér hefur stökkbreyst.
... og þarna var tilgangurinn kominn ...
Að mæta í ræktina 4 - 5x í viku er ekkert mál ...
Að hafa ekki drukkið kók í næstum 4 vikur og ekki einu sinni langað í þennan dásamlega drykk ...
... er gert með brosi á vör og án allrar fyrirhafnar.
Bara vegna þess að tilgangurinn er skýr ... einfaldlega að líða betur ...
Engar pælingar um aukakíló eða sixpakk ... engar vangaveltur um ofgnótt af sykri og sýru eða tannskemmdir ...
Ég fer í ræktina og drekk ekki kók einfaldlega til að líða betur ...
Svo les ég bókina hans Guðna ... og búmm ... hann leggur áherslu á að hafa tilgang markmiða skýran og ekki síður hafa tilgang markmiða þannig að hann fóðri ekki skortdýrið í manni.
Fóðra skortdýrið?
Jú ... sem dæmi ... líkamsræktarmarkmið sem snúast ekki um neitt annað en að fá sixpakk eða tálga af sér 10 kg til að líta betur út á sundskýlunni snúast um að þjóna utanaðkomandi þáttum ... það er verið að falast eftir aðdáun annarra, líta vel út í augum annarra ...
Ef maður verður var við aðdáunina þá líður skortdýrinu vel í smástund, svo fellur allt í sama mótið aftur og skortdýrið krefst þess að meira sé gert ... stærra sixpakk og fleiri kíló af ... ef það tekst ekki þá er maður agalaus aumingi og ræfill ...
Ef maður verður ekki var við aðdáunina þá lætur skortdýrið mann vita rækilega af því að maður sé enn alltof feitur og asnalegur ... og sennilega muni maður aldrei fá sixpakk af því maður er agalaus aumingi og ræfill.
Með öðrum orðum ... lífshamingja sem byggist á skoðunum annarra er engin lífshamingja ... og tilgangur sem byggist á að hljóta aðdáun og dáð í augum annarra er enginn tilgangur ...
Tilgangurinn verður að vera innihaldsríkur og uppbyggilegur fyrir mann sjálfan til að virka ... þá mun maður ná markmiðum sínum fyrr en mann grunar :) .
Nóg í bili ...
Athugasemdir
Miklar og góðar pælingar hér á ferð! Eins og svo oft áður færð þú mann til að hugsa .... sem er gott!
Stjóri (IP-tala skráð) 21.5.2011 kl. 01:51
Já takk! Ég þarf alveg að fara að versla mér þessa bók! Er einmitt mikið í markmiða-pælingum um þessar mundir.
Og lengi lifi snuðin, byði ekki í tanntökuna sem nú er í gangi án þeirra
Anna Klara (IP-tala skráð) 21.5.2011 kl. 21:04
:D
Páll Jakob Líndal, 22.5.2011 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.