20.4.2011 | 22:06
Miðvikudagur 20. apríl 2011 - Fermingarafmæli og fleira
Í öll þau skipti sem ég hef bloggað þann 20. apríl hef ég minnst á ferminguna mína. Ekki af ástæðulausu enda var ég fermdur þann dag árið 1987.
Það styttist óðum í 25 ára fermingarafmælið.
Ég birti hér á blogginu fyrir nokkru síðan viðtal sem tekið var við mig og bekkjarsystkini mín og birtist í Þjóðviljanum þann 12. apríl 1987. Umræðuefnið var fermingin ...
---
En það er óhætt að segja að ég hafi lifað betri daga en þennan í dag. Ferlegt slen og deyfð yfir karlinum ... allt einhvern veginn á hálfum snúningi ...
Það verður nú að segja að verkefni dagsins var nú ekki það uppbyggilegasta sem ég hef fengist við á ævinni. Ég var í því að "klippa og líma" gagnaskrá í tölvunni.
Brátt kemur betri tíð með blóm í haga ...
---
Annars er gaman að segja frá því að Guddan vaknaði skellihlæjandi í morgun og það fyrsta sem hún sagði var "meija desönd" sem útleggst á íslensku sem "meiri Andrés önd". Það hefur sum sé allt verið á fullu rétt áður en hún vaknaði.
Í gærmorgun voru fyrstu orð dagsins ekki ógáfuleg. Þá snéri Guddan sér að mér og spurði: "Dulegur að hlaupa?"
"Emmm ... já ... "
Málið var þá útrætt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.