13.4.2011 | 22:32
Miðvikudagur 13. apríl 2011 - Nokkur komment um kvikmyndagerð
Svíþjóð heilsaði mér með pompi og prakt í hádeginu í dag ... Sverrir mættur út á flugvöll á ná í mig ... það var afar fallegt af honum :) .
Aldrei þessu vant þá ákvað ég að hafa það extra "næs" í flugvélinni. Keypti mér t.d. eggjaköku með beikoni, pylsu og kartöfluteningum á 1500 kr. Fullkomið rán þar á ferðinni ... ;) .
Meðan ég át herlegheitin þá horfði ég á myndina "Gauragang".
Þrátt fyrir einbeitta vilja og jákvætt viðhorf, verð ég að viðurkenna að mér fannst hún ekkert sérstaklega góð. Nokkrar villur í henni spilltu líka fyrir.
Sem dæmi ... myndin á að gerast kringum áramótin 1979/1980. Þrátt fyrir þetta notar aðalsöguhetjan í myndinni þá peninga sem teknir voru upp eftir myntbreytinguna sem var í upphafi árs 1981. Og ekki nóg með það ... hann hringir í tíkallasíma og notar til þess tíukrónupeninga sem voru ekki teknir í gagnið fyrr en árið 1984, þegar blái 10 krónu seðillinn með Arngrími lærða vék fyrir loðnu-tíkallinum.
Að auki ekur ein persóna myndarinnar á gamalli ryðgaðri Lödu. Út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja en heppilegra hefði verið ef einhver hefði haft vit á því að sjá til þess að týpan væri frá 8. áratugnum. Sú týpa sem sést í myndinni var ekki framleidd fyrr en kringum árið 1985.
Þá fannst mér orðanotkun unglinganna í myndinni miklu nær því sem er í gangi í dag en var áður fyrr. Því miður man ég samt ekkert dæmi til að styðja mál mitt ... þyrfti að horfa aftur myndina. En orðfærið var bara þannig að maður beið bara eftir að einhver tæki upp gemsann sinn og sendi sms.
Ljóst er að ofurlítil rannsóknarvinna hefði nú gert gæfumuninn þarna ... ;) .
Íslenskir kvikmyndagerðarmenn mættu líka vanda sig svolítið meira í klippingunum ... sérstaklega þegar fólk fer á milli staða. T.d. í Gauragangi, þá var aðalsöguhetjan að hlaupa einhvers staðar í Vesturbænum held ég og svo einni sekúndu síðar var hún komin niður að Tjörninni. Ég sá líka einhvern íslenskan glæpaþátt á sunnudagskvöldið sem á að gerast á Akureyri. Þar þeyttust menn bæjarhlutanna á milli á innan við sekúndu.
Auðvitað spilar það inn í að maður þekkir staðhætti í Reykjavík og á Akureyri mjög vel. Sjálfsagt væri þetta í góðu lagi ef slíkt væri ekki raunin en mér finnst samt að það mætti spá meira í þetta, einmitt vegna þess að mjög margir sem sjá þessar myndir eru kunnugir staðháttum.
Jæja ... ég held bara að þetta sé fyrsta færslan mín á þessari bloggsíðu sem fjallar um kvikmyndir ... það var þá kominn tími til.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.