Þriðjudagur 8. mars 2011 - Að kvarta og kveina

Af einhverri ástæðu hefur tæknibúnaðurinn á þessu bloggi tekið upp á því að afnema nokkur bil í textanum ... hef enga skýringu á því ...

--- 

Það er afar fróðlegt finnst mér að fylgjast með umræðunni á Íslandi, þar sem alltof margir keppast við að finna að öllu milli himins og jarðar.

--- 

Það sem ber helst á góma núna er bensínverðið. Það sé bara alveg fáránlega hátt. Rúmar 230kr.  Til samanburðar má þó geta þess að Statoil selur lítrann af blýlausu 95 oktana bensín í sjálfsafgreiðslu hér í Uppsala, á 14,13 sænskar krónur eða á tæplega 260 íslenskar. 

Það að eiga og reka bíl er bara ekkert sjálfsagður hlutur, og enn síður mannréttindi eins og ég las einhver staðar nýlega. Hærra bensínverð kallar einfaldlega á breytingar. Það verður kannski að hætta að rúnta eða vera að skutlast út um allt. Það verður kannski bara að draga fram spil á sunnudögum í staðinn fyrir sunnudagsbíltúrinn. Hugsanlega að sameinast í bíla á leið í vinnu. Nú eða eins og sumir hafa nefnt, skipta umferðamáta ... 

--- 

Og þá er komið að öðru vinsælu kvörtunarefni.  Almenningssamgöngunum. Það eru margir sammála um að þær gætu verið betri í Reykjavík. En á sama tíma er gólað ógurlega yfir verðinu.

Það á sumsé að standa undir algjörri toppþjónustu með algjörri lágmarks gjaldheimtu. Í Uppsala kostar stök ferð í strætó um 30 sænskar krónur eða um 550 íslenskar. Þjónustan er skert bæði á kvöldin og um helgar. Og í samanburði við Osló er verðlagning í Reykjavík algjör grín.

Almenningssamgöngur eiga fyrst og fremst að vera góðar en þegar sífellt er verið að bjástra við að hafa þær sem ódýrastar þá geta þær ekki orðið góðar.  Ekki nema náttúrulega séu teknir peningar annars staðar frá en þá fara allir líka að góla.

--- 

Og ofan á þetta er svo kvartað mikið yfir því hversu illa umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu anna umferðarþunganum. Maður hefur oftar en einu sinni heyrt fólk kvarta hástöfum yfir því að það taki allt upp undir 40 mínútur að komast ofan úr efstu byggðum Reykjavíkur niður í miðbæ. Það verður bara að fara að gera eitthvað í þessu, segir fólk með grátstafinn í kverkunum. 

Í Sydney fékk ég stundum far á fótboltaæfingar, ég var að þjálfa þar fótbolta. Það voru eknir um 10 km og það tók um þrjú korter að komast á áfangastað ... og það var ekki einu sinni á háannatíma. Ég man ekki eftir því að nokkru sinni hafi verið kvartað yfir því hvað ferðin tæki langan tíma.  Fólk lagði einfaldlega bara fyrr af stað til að komast í tæka tíð og hafði í bílnum hljóðbækur, tónlist, auk útvarpsins til að stytta sér stundir. Jafnvel bækur til að grípa í.

--- 

Að lokum er það blessað rafmagnið ... já og hitinn ... svona hreint alveg ótrúlega dýr. Á Íslandi tíðkast það mjög víða, sérstaklega í þéttbýli að öll híbýli fólks eru upphituð.  Hvert eitt og einasta herbergi. Og það finnst engum það merkilegt.

En það er merkilegt, því það heyrir til undantekninga að slíkt sé gert erlendis. Þegar ég var í Austurríki fyrir nokkrum árum var farið mjög sparlega með alla upphitun innandyra. Svo ekki sé talað um rafmagnsnotkun. Hér í Svíþjóð gilda sömu lögmál ... t.d. í blokkinni hjá okkur, er hitanum bara stjórnað af húsnæðisfélaginu sem rekur blokkina og til að spara ennfrekar er tvöfalt gler í öllum gluggum. Ekki tvöfalt gler eins og á Íslandi, þar sem er 1-3 mm milli glerja. Hér eru 1-2 cm milli glerja til að tryggja að hitinn haldist inni.

Í Sydney var ekki einu sinni ofn í íbúðinni hjá okkur.  Á vetrum þegar hitinn fór niðurí 7°C gat því orðið ansi kalt. Við gripum til þess ráðs að kaupa okkur lítinn hitablásara til að gera veruna bærilegri og þegar Guddan fæddist splæstum við í lítinn rafmagnsofn.

Mánuði síðar kom leigusalinn okkar og sagði að rafmagnsreikningurinn hefði rokið upp úr öllu valdi. Hann þrefaldaðist, úr um $300 í næstum $900.  Bara út af einum litlum, skitnum ofni í einu herbergi. 

Einn góður vinur minn hér í Svíþjóð sagði mér að þegar hann fengi Íslendinga í heimsókn, þá væri iðulega öll ljós logandi í öllum herbergjum alltaf ... sem er ágætis vísbending um að Orkuveitan hefur sjálfsagt svigrúm til ennfrekari hækkana ... en þessi ávani hefur sannarlega vaxið af manni eftir um fjögurra ára veru erlendis.

Ég tek undir orð Jóns Gnarr í "Spjallinu með Sölva" í síðustu viku þegar hann efnislega sagði að fólk mætti líka horfa á það góða sem er til staðar í íslensku samfélagi ... þetta kemur inn á færslu gærdagsins hjá mér ... þakklæti ...

Þökkum fyrir það sem við höfum og verum hress!! 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband