Þeir eru bara ekki nógu góðir ...

... hugsa kannski einhverjir, eftir þrjá tapleiki íslenska landsliðsins í röð.  Það má svo sem alveg pæla í því ... en hefði þurft að leika tvo síðari tapleikina?  Þegar búið er að leika hátt í tug leikja á nánast jafnmörgum dögum og lið fellur úr keppni, að minnsta kosti úr keppni um heimsmeistaratign, með viðlíka hætti og henti Íslendinga, er þá ekki bara komið gott? 

Greinilega eru skipuleggjendur HM í handbolta ekki  á þeirri skoðun.  Það skiptir engu máli hvort lið er á beinni braut í átt að verðlaunasæti eða dottið út í 8-liða úrslitum - þessi 8 lið sem komust í fyrrgreind úrslit, skulu bara leika tvo leiki í viðbót og ekkert múður.  Það hlýtur að vera alveg meiriháttar að gíra sig upp fyrir leik um 7. sætið, eftir að hafa verið sleginn út í 8-liða úrslitum og lúta svo aftur í lægra haldi, í það skiptið í keppninni um 5. sætið(!) (sem útaf fyrir sig er merkilegt fyrirbrigði - keppni um 5. sætið en jæja ... ). 

Vegna þess að skipuleggjendum HM var það fyllilega ljóst að leikur um 7. sætið virkaði ekkert sérstaklega spennandi, svona á pappírunum að minnsta kosti, var ákveðið að það sæti gæfi möguleika á því að keppa í sérstakri forkeppni um sæti á Ólympíuleikunum(!) - sjálfsagt að því að þessum sömu mönnum finnst stórkeppnir í handbolta ekki of margar.  Þetta er alveg ótrúleg þvæla enda sýnir það sig, hversu menn eru gjörsamlega búnir á því andlega og líkamlega að leikurinn við Spán endar 40:36.  76 mörk á 60 mínútum!  Það veltir upp annarri spurningu: Hvað ætli sé hægt að skora mörg mörk í handboltaleik ef það eru engar varnir leiknar?

Landsliðum Íslands, Spánar, Rússlands og Króatíu hefði bara átt að gefa frí eftir tapleikina í 8-liða úrslitunum - líkt og gert er á HM í fótbolta.  Þessi lið lentu í 5.-8. sæti á HM 2007 - búið basta.  Leiðina á Ólympíuleikana mætti svo finna með öðrum hætti.

Eru forráðamenn handboltans ekki að reyna of mikið - maður bara spyr sig!  Ójá ...


mbl.is Ísland í 8. sætinu eftir tap gegn Spánverjum, 40:36
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hmm.... mér finnst nú eiginlega að liðin ættu að vinna 2 af 3 leikjum til að öðlast sætið, allt of lítið að láta þau spila einn leik fyrir hvert sæti það er svo mikil heppni sem spilar inn í  kv. Benný

Benný (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 13:20

2 identicon

Hjartanlega sammála Benný! Til að útiloka heppni þarf mikið fleiri umferðir. Við vitum ekki fyrir víst hvort Þjóðverjar eru RAUNVERULEGA með besta lið í heimi. Þreföld umferð í átta liða úrslitum, allir spila við alla, og svo fjórföld umferð í fjögurra liða úrslitum ætti að duga til að skilja hafrana frá sauðunum. Það lið sem síðan ynni þrjá innbyrðis úrslitaleiki yrði úrskurðað besta lið í heimi. Frekar margir leikir en ég er hræddur um að þetta sé eina tölfræðilega marktæka leiðin.

Dóri (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 19:24

3 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Get ekki annað en tekið undir þessi orð - eina sem mér finnst kannski gleymast er að það ætti að fella riðlakeppnina út og láta alla spila við alla í fjórfaldri umferð til að losna við allra lélegustu liðin áður en að milliriðlum kemur, þar væri svo spiluð aftur fjórföld umferð allir við alla og síðan, sbr. lýsingar Dóra.  Með þessu fyrirkomulagi gæti vel verið að Áströlum hefði gengið betur á mótinu - kannski bara rosalega lengi í gang - hver veit?

Páll Jakob Líndal, 5.2.2007 kl. 22:22

4 identicon

Já, ég trúi að það búi meira í Áströlum (og Grænlendingum) en þeir sýndu en menn ná varla að hitna þegar það eru spilaðir svona fáránlega fáir leikir. Þetta þyrfti heldur ekki að taka lengri tíma.....fyrst krakkar geta spilað 3 leiki á dag á fjölliðamótum hljóta fullorðnir menn að geta það líka!

Dóri (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 23:29

5 identicon

Sammááála.....viss um að Ástralir hefðu rústað þessu móti ef þeir hefðu bara fengið að hita upp!!

Benný (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband