13.2.2011 | 22:17
Sunnudagur 13. febrúar 2011 - Hæðir og lægðir hjá Guddunni
Það var gaman að fylgjast með Guddunni í dag ... virkilega ...
Greinilega búin að herðast mikið frá því sem áður var :) . Ég hef ekki séð hana svona áður ...
Málið var að í dag hittum við Gunnar og Ingu Sif og börn þeirra Óla Má og Gerðu á kaffihúsi í Gränby Centrum. Lauga og Gunnar vinna saman og hittast því oft en við höfum ekki hittst öll svo mánuðum skiptir.
Óli Már og Guddan eru nokkurn veginn jafngömul ... og síðast þegar við hittumst þá mátti blessaður drengurinn bara ekkert gera öðruvísi en stubbur færi að gráta og góla. Maður var stundum alveg gáttaður á þessum bjálfagangi ...
... en í dag var öldin önnur ... nú var ekkert grátið heldur mættust stálin stinn, hvorugt gaf þumlung eftir, það var tekist á um dótið sem var meðferðis, það var svolítið slegist en allt endaði þetta með því að þau urðu perluvinir. Þau hlupu saman um ganga verslunarmiðstöðvarinnar, inn í búðir, út í sýningarglugga, stoppuðu rúllustigana o.fl.
Svona eiga "götustrákar" að vera!!
---
Guddan var samt ekki alveg jafn upplitsdjörf þegar hún var keyrð niður af farþega á snjóþotu í Årsta-brekkunni. Það var mildi að ekki fór verr en áreksturinn var samt nógu harður til þess að Guddan þeyttist upp í loftið og snerist þar hálfhring uns hún lenti á kafi ofan í snjónum.
Óneitanlega kostuleg sjón.
---
Það er lítið um myndir þessa dagana ... batteríið í myndavélinni er búið og ég finn ekki hleðslutækið ...
... þetta hlýtur samt að fara að koma ... trúi ekki öðru.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.