Fimmtudagur 10. febrúar 2011 - Vor í lofti?

"Mér er sama hvað hver segir ... það er vor í lofti", sagði hinn eini sanni Sverrir í fyrradag, á leiðinni út í bíl eftir að við höfðum sporðrennt sitthvorum Subway-bátnum.

Og ég gerði það sem ég hefði ekki átt að gera ... ég tók mark á honum ... 

"Já, ég held það bara ... " svaraði ég. "Systir mín er líka fimmtug í dag" bætti ég svo við, eins og það kæmi málinu eitthvað við. 

Sverrir var líka fljótur að grípa það á lofti. "Hvað kemr það málinu eiginlega við?!?

"Tja ... veit ekki ... vildi bara nefna það.

--- 

Í gær datt hitastigið niður í tæpar -14°C. Lauga kom heim úr vinnunni eldrauð í framan. "Djöfull er orðið kalt".

Í dag hefur snjóað endalaust. "Það er næstum vonlaust að hjóla núna það er svo mikill snjór" sagði ég vil Laugu í kvöld eftir að ég hafði skroppið út í búð. "Já, ég veit" svaraði hún.

 

"Mér er sama hvað hver segir ... það er vor í lofti". 

My a**!!! 

---

Sverrir virðist vera álíka spámannlega vaxinn og Leifur frændi.

Á árum áður átti Leifur það til að slengja fram veðurspá fyrirvaralaust. Alverst var þegar hann spáði sól og blíðu, því þá var allra veðra von.

Dæmi um það var hinn 17. júní árið 1988. Dagur sem rennur mér seint úr minni en þá vorum við Leifur ásamt fleira fólki uppi í Borgarfirði.

Daginn áður höfðum við náð í tvo hesta úr tamningu hjá Skúla á Svignaskarði og hugðumst nota þjóðhátíðardaginn til að stunda útreiðar. Á leiðinni heim frá Svignaskarði spáði Leifur þessu líka fína veðri ... "sól og blíða á morgun" sagði hann ákveðinn.

Árla morguns var hins vegar skollið á slíkt fárvirði að elstu menn mundu vart annað eins. Suðaustan rok og ausandi rigning.

"Jæja" sagði Leifur þegar hann leit út um gluggann. Svo mörg voru þau orð.

Reiðhestarnir stóðu og hímdu úti í veðurofsanum og ekki var annað í stöðunni en að koma þeim á hús.

Frá og með þessum degi hef ég alltaf beðið fyrir mér þegar Leifur setur sig í stellingar veðurspámannsins ... sem betur fer er hann að mestu hættur því ... 

---

Guddan er járnhress ... enda svo gaman á leikskólanum að sennilega myndi það hálfa duga.

Ólétta húsfreyjunnar er farin að taka sinn toll, sem helst lýsir sér í miklum og síendurteknum andvörpum við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.

Sjálfur hef ég verið að skrifa grein sem meiningin er að birtist í næsta hefti Múlaþings ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Eigum við ekki bara að vera sammála um að þetta sé snemmbúið páskahret

Guðmundur Sverrir Þór, 11.2.2011 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband