1.2.2011 | 22:43
Þriðjudagur 1. febrúar 2011 - Fyrsta innkaupaferðin
Þegar ég náði í Gudduna á leikskólann í dag, vildi hún endilega fara í búðina ... þ.e. í matvörubúðina.
Það er eitthvað rosalegt sport að fara þangað ... en barnið erfir það hvorki frá mér né Laugu ... því hjá okkur mælist hamingjan í öfugu hlutfalli við fjölda búðarferða.
... en jæja ...
Ég lét það eftir blessuðu barninu enda forvitinn að sjá hvað hún hyggðist gera í búðinni ... hvað gerir 2,5 ára gamalt barn í matvörubúð?
Ég spurði hana hvað hún ætlaði að gera í búðinni.
"Appelsínur, epli, tómatar" var svarið.
"Já en þetta er allt saman til heima".
Það skipti engu máli.
---
Stubbur gekk vasklega til verks í búðinni. Byrjaði á því að ná sér í innkaupakerru við hæfi. Ók svo að skápnum þar sem nýbakaðar kökur er að finna. Þar átti að fá sér grænan marsipan-staut.
Svo var það grænmetið. Einn tómatur.
Því næst kælivörurnar. Hrísmjólk með hindberjum og 2 lítrar af Bravo-appelsínusafa.
Í kjölfarið var gullfiskabúrið heimsótt.
Eftir að hafa horft á fiskana í smástund datt fókusinn alveg út, kannaðist sú stutta ekkert við að vera kaupa neitt og tók ekki í mál að ýta kerrunni meira.
Strikið var tekið á sælgætisbarinn, þar sem óskað var eftir "smarties". Því var hafnað. Þá var lagst í gólfið.
Brá ég þá á það ráð að bjóða henni að "borga konunni" eins og það er kallað. Það var samþykkt og borgaði Syd konunni með 100 kr. seðli og tók hróðug við afgangnum.
Raðað var í pokann og gengið frá kerrunni.
---
Þetta var sumsé fyrsta innkaupaferð dótturinnar ... þar sem hún er í "ökumannssætinu" ...
Er ekki alveg að skilja þetta með þennan tómat ... Guðrún hefur aldrei nokkurn tímann fengist svo mikið til að snerta tómat með tungubroddinum?!?!
---
Annars vorum við Lauga í skemmtilegum umræðum í kvöld um kærleikann og skilyrðislausa ást. Það er svo sannarlega "valid" umræðuefni.
Ég spurði Laugu: "Hvað er eiginlega skilyrðislaus ást?"
Hún svaraði því í löngu máli, við köstuðum svo boltanum fram og aftur dágóða stund ... og skildum svo spurningar eftir í loftinu ...
Á tímabili hélt ég að ég væri að skilja þetta ... en núna held ég að ég skilji þetta ekki ... en samt er ég einhvern veginn nær því að skilja þetta en áður ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.