Laugardagur 29. janúar 2011 - Að vera ekki alveg nógu hress

Ég er í ótrúlega litlu skriftarstuði þessa dagana.

Nóg að gera ... kannski of mikið ...

Fór í söngtíma í gær þar sem tekið var upp svolítið efni ... var svona stúdíótími. Alveg hrikalega skemmtilegt.
Upptakan er söguleg enda heyrir maður alveg helling af atriðum sem gera þarf betur. Það er oft sagt að í söng læri maður mest af því að heyra upptöku af sjálfum sér.

Það er nefnilega þannig að það sem maður heyrir sjálfur er ekki það sem allir aðrir heyra ... það þekkja allir sem hafa einhvern tímann heyrt upptöku af sjálfum sér tala.  Manni finnst röddin skrýtin ...

Svona upptökur eru harður húsbóndi, því þær láta ekkert framhjá sér fara ... allir villur og allir tæknilegir feilar eru "nóteraðir".

---

Annars er það nú að frétta að upp öllu sauð í gærkvöldi þegar sló í brýnu milli okkar feðginanna.

Málið var að í gærmorgun hélt ég fyrirlestur í Uppsalaháskóla og var satt að segja ekkert of ánægður með frammistöðuna og svona fremur súr í allan gærdag ... 

... þegar Guddan var svo hérna heimafyrir sífellt að segja mér að hætta að tala við Laugu, sífellt að grípa fram og var með almennan dólgshátts ... fór þolinmæðin þverrandi ...

Hún, þ.e. þolinmæðin, loks brást klukkan 22.30 í gærkvöldi þegar Syd Houdini vaknaði eftir að hafa sofnað 10 mínútum áður og reif í kjölfarið stólpakjaft þegar henni var neitað um að fá að horfa á Dóru landkönnuð. 

Lauga sagði okkur að hætta að rífast ... en það dugði ekki til ... úfið geðslag og breyskleiki föðursins varð til þess að Lauga fór inn í svefnherbergi með fokreiða Guddu. "Þú ættir nú að sjá það sjálfur að það þýðir nú lítið að vera að rífast í 2,5 ára barni sem varla veit hvað það heitir af þreytu" voru kveðjuorðin.

Eftir í stofunni sat fokreiðari faðir.

--- 

 

Það er langt síðan svona skapstyggð hefur komið upp í mér ... og fór allur dagurinn í dag að vinda ofan af þessu.

Það var meðal annars gert með því að skamma Laugu talsvert, pirra sig á mörgum ólíkum hlutum og vera bara almennt leiðinlegur. Alveg merkilegt hvað maður er alltaf til í að láta eigin "óstuð" bitna á öðrum.

---

Svona dagar eru því alleiðinlegustu dagar sem maður upplifir. Það er bara einhvern veginn endalaus mótvindur, ekkert gengur upp og ekkert mun ganga upp nokkurn tímann ... ;)

Dagurinn á morgun verður skemmtilegur ... ég er búinn að ákveða það :) .  Samt mikil synd að fara svona illa með þennan dag sem kemur aldrei aftur ...

... jæja ... en svona er þetta bara ...

... það var þó lagað til hérna heimafyrir í dag. 


Guddan býður upp í dans í fyrradag ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband